Leikritið Upphaf eftir David Elridge verður frumsýnt í Kassanum, Lindargötu, í kvöld, laugardaginn 19. september. Leikarar eru Kristín Þóra Haraldsdóttir og Hilmar Guðjónsson. Leikstjóri er María Reyndal.

„Verkið fjallar um Guðrúnu og Daníel. Hann er einn eftir þegar gestirnir úr innflutningspartíi hennar eru farnir. Verkið gerist á rauntíma á einum og hálfum klukkutíma og fjallar um samskipti þeirra þessa nótt,“ segir María.

Sannleikur og nánd

Leikritið var frumsýnt í London fyrir þremur árum, hlaut einróma lof gagnrýnenda og áhorfenda og hefur verið sýnt víða um heim. Spurð hvað það sé sem heilli svo mjög við leikritið segir María: „Þarna eru litlar umbúðir og mikill sannleikur og nánd. Ég held að það hrífi fólk. Þetta er mjög vel skrifað leikrit og trúverðugt með áhugaverðum persónum. Þarna er hefðbundnum kynjahlutverkum snúið við. Hún er sterk kona, framkvæmdastjóri í fyrirtæki, og hann er fráskilinn og býr hjá mömmu sinni. Í leikritinu, sem fjallar um einmanaleikann og þrá eftir að tengjast, er gleði, harmur og von. Ég held að allir geti samsamað sig einhverju í verkinu.“

Einungis tveir leikarar eru í Upphafi og eru á sviðinu allan tímann. Engar senuskiptingar eru og ekkert hlé. Það reynir því mjög á leikarana Kristínu Þóru Haraldsdóttur og Hilmar Guðjónsson. „Þau eru mjög færir leikarar með mikla reynslu,“ segir María. „Við þrjú unnum saman í mikilli nánd og deildum sögum úr lífi okkar.“

Skrifaði leikrit í COVID

Vegna COVID þurfti að skella í lás í leikhúsum landsins, en nú er verið að opna þau eitt af öðru. Spurð hvernig hafi verið að vera leikhúsmanneskja á COVID-tímum segir María: „Ég er sjálfstætt starfandi leikstjóri og er alltaf að finna mér verkefni. Þegar allt varð skyndilega stopp dreif ég mig í að skrifa leikrit.

Þessi tími hefur verið bæði erfiður og langur fyrir stéttina. Öll þráum við að sýna og fá áhorfendur í leikhúsin. Við lifum ekki af nema fólk þori að koma og vera með okkur og upplifa það sem gerist á sviðinu. Við erum mjög spennt og glöð að fá að opna aftur.“