Finnbogi Pétursson myndlistarmaður sýnir verk á sýningunni Hljóð í Safnaðarhúsi Neskirkju. Hann er sömuleiðis höfundur Kærleikskúlunnar 2020.

Verkin á sýningu hans eru þrjú, tvö eldri verk og eitt nýtt. „Þessi sýning er búin að standa til mjög lengi en ég var stöðugt að humma hana fram af mér. Þar sem ég er listamaður Kærleik sk úlunnar ákvað ég að nota það tækifæri til að sýna verk þar sem ég er að fjalla um þögnina, eins og í Kærleikskúlunni. Það má því segja að ég stíli þessa sýningu í kringum Kærleikskúluna. Sem listamaður hef ég mikinn áhuga á hljóði og þögnin er hluti af því.“

Kærleikskúla hans heitir einmitt þögn og hefur að geyma hljóðupptöku á segulbandi. „Þetta er hljóðupptaka frá Arnarstapa sumarið 1986. Þar hitti ég á augnablik sem ég hef oft hitt á í gegnum tíðina. Maður tekur best eftir því á björtum sumarnóttum þegar allt er kyrrt, það er logn og sjórinn er sléttur og vindurinn kyrr og fuglarnir og f lugurnar þagna. Allt þagnar á sama tíma. Maður finnur þrýsting á líkamann og eyrun en heyrir ekkert nema suðið í æðakerfinu í sjálfum sér. Svo byrjar allt upp á nýtt, fluga suðar og vekur spóann og spóinn vekur lóuna og hrossagaukinn og vindurinn fer að gára vatnið.

Ég lá í grasinu og hlustaði eftir þessu og náði að taka upp þetta augnablik þagnarinnar. Í gegnum árin hef ég stöðugt verið með það í huga að ég yrði að nýta þessa upptöku. Svo fékk ég það verkefni að gera Kærleikskúluna og hún er einmitt rétta umgjörðin utan um þessa stund, augnablikskyrrð, ein sekúnda af íslenskri þögn á metra löngu segulbandi.“

Hljóðið eins og steingervingur

Eitt verkanna í Neskirkju er nýtt og þar sýnir hann snældur sem geyma upptökur af útvarpsefni frá 9. áratugnum. „Þetta eru gamlar spólur sem mér áskotnuðust frá útvarpsstöð sem sendi út dægurtónlist allan daginn undir kjörorðinu: Meiri tónlist, minna mas. Þetta er frystur tími, hljóðið er varðveitt eins og steingervingur í formi síns tíma.“

Annað verk er svartur kassi með steini ofan á. „Hugmyndin er vísun í Journey to the Center of the Earth eftir Jules Verne þar sem er farið niður í Snæfellsjökul og komið upp í Stromboli. Steinninn er úr Snæfellsjökli, úr hrauni sem kemur upp á yfirborðið. Í þessu tilfelli endar grjótið úti í fjöru og fjaran sverfur það í þennan sívala stein. Ég tek við og bora inn í miðjuna á steininum. Í þessari miðju er míkrófónn sem tengist inn í lítinn útvarpssendi sem er inni í kassanum og sendir út þögnina úr miðju jarðarinnar, kjarnans, þar sem allt verður til.“

Þriðja verkið, Traps, samanstendur af þremur kössum á vegg. „Þessi útgáfa er frá árinu 2010 sem ég gerði fyrir sýningu í Bandaríkjunum. Í grunninn eru þessir kassar hljóðgildrur, ég tíðnimæli rýmið inni í kössunum. Annar kassinn er 120 rið meðan mótkassinn er 390 rið. Þetta er þögult verk en einingarnar svara eigin tíðnisviðum í því umhverfi sem þær eru staðsettar í. Þetta er eins konar athvarf fyrir óæskilegar tíðnir.“

Náði að endurstilla sig

Aðspurður segir Finnbogi að það hafi enga sérstaka þýðingu fyrir sig að verkin séu sýnd í samkomusal í kirkju. „Það hefur hins vegar þýðingu að verkin eru sýnd á þessu ákveðna tímabili. Ég fékk COVID í fyrstu bylgju og var lokaður inni í 33 daga sem varð til þess að ég náði að endurstilla mig. Það var mikill hraði í kringum mig, ég var kannski kallaður út með tveggja daga fyrirvara og þurfti að f ljúga til Berlínar og setja upp eitt verk og fljúga svo til baka. Kannski lærði ég upp á nýtt að hugsa og spyrja: Hver er raunverulegur tilgangur með þessu?“