Circulum og Landvættir er yfirskrift myndlistarsýningar í Galleríi Fold en þar sýnir myndlistarmaðurinn Odee, Oddur Eysteinn Friðriksson, á annan tug verka. Hann sameinar þarna tvær seríur; Circulum og Landvætti. Verkin eru öll hringlaga, gerð úr samsettum klippimyndum frá menningu sem hefur haft mótandi áhrif á listamanninn. Verkin eru brædd í álplötur og síðan er húðað yfir með gloss filmu.

Um hið hringlaga form segir Odee: „Það að búa til list í hringlaga formi kallar á öðruvísi mynduppbyggingu en í því ferhyrnda og gefur manni fleiri tækifæri til að prófa nýja hluti og búa til eitthvað einstakt.“

Raunverulegar verur

Spurður af hverju hann hafi valið landvætti sem myndefni segir hann: „Landvættir eru ekki bara þessir fjórir sem eru í skjaldarmerkinu heldur hafa þeir verið á ýmsum stöðum í gegnum aldirnar. Þetta eru yfirnáttúrulegar verur sem geta annaðhvort verndað einstaklinga eða hegnt þeim ef þeir gera eitthvað af sér inni á þeirra landsvæði.

Þegar ég var að vinna verkin og horfði á skuggamyndirnar af fólkinu sem ég bý til, þá fannst mér eins og ég sæi persónuleikana brjótast út. Mér fannst þetta vera raunverulegar verur. Það gaf mér orku. Það má segja að verkin setji sig saman sjálf. Ég byrja en þau taka við og leiða mig áfram.“

Lokað á opnunardag

Engin formleg opnun var á sýningunni vegna samkomubanns. Opnunardaginn var Odee með beint streymi á Facebook, sem um 1.500 manns fylgdust með, þar sem hann fjallaði um sýninguna. Hann spjallaði við áhorfendur um verk sín í nærri klukkustund og svaraði spurningum þeirra sem settar voru fram í athugasemdum. „Þrátt fyrir að hafa verið í tómum sal þá var þetta fjölsóttasta sýningaropnunin mín til þessa þótt galleríið hafi verið lokað. Hverjum hefði dottið það í hug,“ segir Odee. Nokkur verk eru þegar seld.

Það eru um sex ár síðan Odee sneri sér að myndlist, en áður stundaði hann nám i viðskiptafræði, með áherslu á markaðsfræði og stjórnun. „Einn daginn var ég að horfa á vegginn heima hjá mér og fannst eitthvað vanta á hann. Ég fór að hugsa hvort ég gæti ekki gert eitthvað sjálfur. Svo vatt þetta upp á sig. Ég bý yfir nokkrum hæfileikum sem sameinast í Odee. Ég hef skilning á markaðssetningu og á auðvelt með spuna og sköpun og svo er líka í mér viss grallaraskapur.“

Sýningin í Galleríi Fold stendur til 18. apríl en hún er einnig aðgengileg á vefsíðu gallerísins; gallerifold.is.