Hægra/Vinstra er titill á tveimur sýningum Eddu Jónsdóttur, í Ásmundarsal og á Mokka. Þetta eru fyrstu einkasýningar hennar síðan 1994, en auk þess að starfa sem myndlistarmaður stofnaði Edda og rak myndlistargalleríið i8 í mörg ár. Í þann tíma lagði Edda sína eigin listsköpun til hliðar, en stígur nú fram með ný verk sem unnin hafa verið síðustu tíu ár. Sýningarstjórar sýninganna tveggja eru Auður Jörundsdóttir, Anna Júlía Friðbjörnsdóttir og Hildigunnur Birgisdóttir.

„Þegar ég vann að þessum verkum var ég ekkert með sýningu í huga, þetta var bara nokkuð sem ég varð að gera. Svo söfnuðust verkin saman og ég hugsaði með mér að ég skyldi biðja þær að koma heim og segja mér hreinskilnislega hvort það væri eitthvert vit í þessu sem ég væri að gera eða ekki. Ég var alveg viðbúin því að þeim fyndist ekkert í þetta varið og var tilbúin að taka því. En þær sáu eitthvað í þessu og Hildigunnur sagði strax að þetta yrðu að vera tvær sýningar,“ segir Edda.

Sjaldgæfur eiginleiki

„Það sem sló okkur þegar við sáum þessi verk er hvað það er mikil forvitni og léttleiki í þeim. Við urðum spenntar og vildum fá að sýna þau,“ segir Hildigunnur. „Í verkunum ríkir frelsi sem einungis kona með hennar reynslu og sögu getur búið yfir. Þetta er sjaldgæfur eiginleiki í manneskju á hennar aldri, því það er algengara að með aldrinum haldi fólk sig í sama farinu. Edda er hins vegar galopin fyrir breytingum og nýjum straumum. Það er aðdáunarvert og til eftirbreytni. Okkur finnst mjög mikilvægt að sýna fólki það.

Verkin á sýningunni í Ásmundarsal eru næm og tær, einhvers konar frumtjáning. Þetta eru postulíns- og keramikfuglar og vatnslitamyndir þar sem verið er að skoða vatnslitinn. Einnig eru þarna nokkur grafíkverk, en frekar ólík þeim sem Edda var þekkt fyrir áður. Á sýningunni eru líka kvikar ljósmyndir sem Edda tekur á símann sinn og deilir gjarnan á samfélagsmiðlum þar sem hún er mjög virk.“

Skugginn aðalatriðið

Á sýningunni á Mokka eru bæði eldri og nýrri verk. „Það er annar tónn í verkunum á Mokka en í Ásmundarsal, hluti þeirra er frá árinu 1994. Þetta er síðasta eintakið af grafíkmöppu þar sem tvær fígúrur takast á í löngum línum sem minna hálfpartinn á skuggadans,“ segir Hildigunnur og bætir við: „Edda er mjög forvitin manneskja og eitt af því sem hún gerir heima hjá sér á fimmtu hæð er að ef hún heyrir fótatak á sólbjörtum degi þá hleypur hún út á svalir og tekur myndir af fólki. Hún nær ótrúlegum myndum í skuggavarpi þar sem skugginn er aðalatriði og maðurinn svo að segja hverfur. Þessar myndir kölluðust svo skemmtilega á við gömlu grafíkmyndirnar að okkur fannst upplagt að sýna þær saman á Mokka þar sem ófá hitamál myndlistarinnar hafa verið reifuð í gegnum árin.“

Þörf fyrir frelsi

Fuglarnir sem Edda hefur skapað eru miklir karakterar og vekja athygli blaðamanns sem spyr Eddu hvort hún sé fuglavinur. „Þeir komu bara, þetta byrjaði eiginlega sem þerapía í höndunum,“ segir hún. „Síðan hef ég verið að velta því fyrir mér af hverju ég fór að gera fugla. Ég hef óskaplega mikla þörf fyrir frelsi og kannski eru þeir tákn fyrir það.“

Á sýningunni í Ásmundarsal má sjá skissubækur Eddu, bækurnar eru einungis brotabrot af þeim fjölda sem Edda hefur unnið á síðustu árum og bera áráttukenndum vinnubrögðum listamannsins vitni. „Í öllum skissubókunum er ein heil hugsun og þar vinnur hún sama mótífið aftur og aftur,“ segir Hildigunnur. „Við sýningarstjórarnir kolféllum fyrir einni vatnslitaskissubók. Edda var í Arizona og hafði einblínt á tré sem garðyrkjumenn höfðu bundið við staur til að hjálpa því að lifa. Í vatnslitaskissubókinni er þetta eina tré, þetta eina prik, teygjan þar á milli og skuggavarpið málað aftur og aftur, fyllir heila skissubók. Þetta er ótrúlega fallegt og við heilluðumst mjög af þessu.“

Edda teiknaði í þessa skissubók með vinstri hendi. Spurð um ástæðuna segir hún: „Ég get ekki skrifað nafnið mitt með vinstri hendi en hugsaði með mér hvort ég gæti teiknað með vinstri hendinni og ákvað að prófa það “

Fuglarnir sem Edda hefur skapað eru miklir karakterar.