Mál­verk eftir Andy War­hol sló met á upp­boði hjá upp­boðs­húsinu Christi­e‘s í New York í gær þegar það var selt eftir einungis 4 mínútur fyrir um 195 milljónir Banda­ríkja­dala, and­virði tæpra 26 milljarða ís­lenskra króna.

Verkið sem um ræðir er silki­þrykk af and­liti leik­konunnar Mari­lyn Mon­roe frá 1964 sem ber titilinn Shot Sage Blue Maril­lyn. Búist var við verð­miðinn myndi verða enn hærri upp­hæð en engu að síður er um að ræða met í list­heiminum þar sem þetta er hæsta upp­hæð sem fengist hefur fyrir banda­rískt lista­verk og enn fremur hæsta upp­hæð sem fengist hefur fyrir 20. aldar mál­verk.

„Við seldum dýrasta mál­verk 20. aldarinnar. Þetta er mikið af­rek,“ sagði Alex Rotter, sér­fræðingur hjá Christi­e‘s í sam­tali við New York Times.

Um var að ræða stórt upp­boð á vegum Christi­e‘s þar sem 36 verk voru boðin upp og söfnuðust alls 318 milljónir Banda­ríkja­dala. Á meðal hinna 36 lista­verka voru verk eftir lista­mennina Cy Twom­bly, Mike Bid­lo og Francesco Clemente. Galleri­star og sér­fræðingar í list­heiminum telja upp­boðið vera til marks um að al­þjóð­legi list­heimurinn sé farinn að jafna sig eftir eyði­merkur­göngu Co­vid-áranna.

„Undan­farin tvö ár hefur verið haldið aftur af gríðar­miklum fjár­munum og það er gríðar­lega mikið af inni­byrgðri eftir­spurn frá nýjum kúnnum. Allir voru að bíða eftir rétta augna­blikinu og rétta augna­blikið er runnið upp,“ segir Philip Hoff­man, stofnandi list­ráð­gjafa fyrir­tækisins Fine Art Group í New York.

Upp­boðið þykir sér­stakt fyrir þær sakir að engum verkanna fylgdi trygging, lág­marks­verð sem þriðji aðili eða upp­boðs­hús hefur sam­þykkt að kaupa verkið á. Að sögn New York Times er það vegna þess að verkin voru í eigu dánar­bús sviss­nesku lista­verka­safnaranna og syst­kinanna Thomasar og Dorisar Ammann og mun allur á­góði upp­boðsins renna til Ammann stofnunarinnar sem styður heil­brigðis­þjónustu og menntun handa börnum.

Ekki er vitað hver er kaupandi War­hol verksins en galleristinn Larry Gagosian bauð í verkið fyrir hönd hins ó­nefnda aðila. Kaupandinn mun svo geta valið sjálfur góð­gerðar­starf­semi sem 20 prósent verð­miðans mun renna til.

„Væntingarnar voru mjög, mjög, mjög háar. Verðið var ein­stak­lega heil­brigt en á sama tíma held ég að kaupandinn hafi gert góðan díl. Þetta er eitt af tákn­myndum 20. aldar listar,“ segir list­ráð­gjafinn Abiga­il Asher.