„Fyrir fimmtugt? Ú, þetta er góð spurning. Ég held ekki. Ég held hann verði kominn yfir fimmtugt. Ég held að við munum sjá Karl verða konung en þetta er bara alltaf spurning um hversu lengi Elísabet ætlar að halda sér á lífi,“ segir Guðný Ósk Laxdal enskukennari sem lengi hefur deilt yfirburðaþekkingu sinni á bresku konungsfjölskyldunni sem @roylaicelander á Instagram, um Vilhjálm prins sem varð fertugur á þriðjudaginn.

Kóngur vill hann verða …

Karl, faðir Vilhjálms, er fremstur í röð ríkisarfa og vel rúmlega sjötugur bíður hann enn eftir konungssætinu en Guðný Ósk telur að drottningin hafi tekið af öll tvímæli um að ekki verði „hoppað“ yfir hann.
Hún bendir á að mikið sé verið að gera Kamillu, eiginkonu Karls, hátt undir höfði.

Guðný Ósk Laxdal hefur lengi fylgst náið með bresku konungsfjölskyldunni.

Til dæmis með tilkynningu drottningar í ársbyrjun um að tengdadóttir hennar fengi inngöngu í hina mjög svo þröngu og virðulegu Sokkabandsreglu. „Það er mjög til marks um að Elísabet telji hana vera framtíðardrottningu og allt útlit er fyrir að verið sé að búa Karl og Kamillu undir að verða næsti konungur og drottning. Það er svo augljóst að það er vilji Elísabetar að Karl taki við og ljóst að það verður aldrei hoppað yfir Karl.

En hversu lengi Karl mun lifa er síðan allt annað mál. Karlarnir í þessari fjölskyldu lifa ekkert ótrúlega lengi. Allaveganna ekki hingað til. Filippus náttúrlega lifði alveg lengi en konurnar lifa miklu lengur þannig að ef maður horfir til næstu tíu ára þá held ég nú að Karl verði konungurinn. En þetta er alltaf spurning og þetta getur breyst mjög hratt.“

Fullkomin konungshjón

Guðný Ósk segist, Vilhjálms vegna, að hann þurfi ekki að bíða jafn lengi og faðir sinn og efast ekki um að þegar þar að kemur verði Vilhjálmur og Katrín fyrirmyndar konungshjón.

Ég veit ekki hvað þetta er en þau eru eiginlega bara orðin fullkominn. Eins og einhver sagði, þá geta ekki gert neitt rangt og ef þau gera það þá fer það einhvern veginn ekki í fjölmiðla. Þau eiga líka rosa gott samband við fjölmiðla. Þú sérð bara muninn á Harry og Meghan þar sem fjölmiðlar eru alltaf svolítið að vinna gegn þeim á meðan þeir vinna með Villa og Kötu.“

Katrín og Vilhjálmur virðast bara ekki geta gert neitt rangt og feilsporin, ef einhver eru, fara ekki hátt. Semsagt hin fullkomnu konungshjón.
Fréttablaðið/Getty

Þá bendir Guðný Ósk á að Vilhjálmur og Katrín hafi yngri kynslóðirnar með sér og það án þess að vera með þau í sviðsljósinu, eins og hefur verið undanfarið, muni honum reynast mjög erfitt að halda uppi vinsældum konungsfjölskyldunnar.

„Við sáum þetta sérstaklega á valdaafmælinu þar sem krakkarnir þeirra voru að koma mikið fram og verið að sýna fjölskylduna. Það vekur alltaf mikla lukku og þau verða einhvern veginn „fjölskyldan okkar“ í hugum fólks.“