Anna Þóra Björns­dóttir, annar eig­enda gler­augna­búðarinnar Sjáðu og grínisti, er mikið jóla­barn. Hún hefur undan­farin 25 ár lagt mikið upp úr því að skreyta glugga verslunarinnar. Hún segir að hún ætli að hætta að skreyta ef hún vinni fyrir fal­legasta jóla­gluggann en að það sé þó alls ekki mark­miðið. Mark­miðið skreytinganna er að gleðja og hafa gaman.

„Ég er mikið jóla­barn. Ég hélt ég væri það ekki, en hef komist að því að ég er það,“ segir Anna Þóra í sam­tali við Frétta­blaðið.

Það hafa margir frægir og ó­frægir prýtt glugga­stillingar í Sjáðu og segir Anna Þóra að það sé vegna þess að þegar hún sjái fal­legt fólk þá fari það beint út í glugga.

„Það er bara þannig,“ segir Anna Þóra.

Spurð hvort hún eigi upp­á­halds­út­stillingar segir hún þann fyrsta á­vallt vera í miklu upp­á­haldi. Þá hafi hún sett alls­bera konu í bað með sól­gler­augu.

„Þetta var reyndar gína þannig hún fékk að vera í nokkrar vikur. Það var rosa­lega flott,“ segir Anna Þóra

Hvernig brást fólk við því?
„Það voru allir of­boðs­lega hissa að þetta væri þarna í gler­augna­verslun. Ég flutti inn í búð 200 kíló bað­kar og málaði það gull­litað. Ég hef ekki mikið unnið með gull síðan en það verður heldur betur gull­litað núna. Þannig það notar maður á 25 ára fresti,“ segir Anna Þóra.

Og er ein­hver nakinn í glugganum í ár?

„Nei, en ég fékk að sjá marga nakta í mynda­tökunni fyrir gluggann í ár,“ segir Anna Þóra og hlær.

Fyrsta útstilling Önnu Þóru er í miklu uppáhaldi. Þá setti hún nakta konu í gluggann.
Mynd/Anna Þóra Björnsdóttir

Verslunin 25 ára

Hún segir að skreytingin í ár sé með mjög miklum há­tíðar­blæ í til­efni af 25 ára af­mæli verslunarinnar. Hún og eigin­maður hennar og hinn eig­andi verslunarinnar, Gylfi Björns­son, ætluðu að halda af­mælis­boð í októ­ber en þurftu eins og svo margir aðrir að fresta því vegna veirunnar.

„Við ætluðum að halda af­mælis­ball í októ­ber en það var ekki hægt. En um leið og við erum búin að fá bólu­setninguna í rassinn þá erum við komin í spari­skónna,“ segir Anna Þóra.

Í stað þess spara þau ekki neitt í skreytingunum í ár.

„Við á­kváðum að spara ekki neitt í skreytinguna og fengum rosa­lega flotta ein­stak­linga til að sitja fyrir og við tökum þetta á trúar­legum nótum og þar sem það er búið að lofa okkur bólu­efni þá verður slag­orðið Sjáðu, vér færum þér mikinn fögnuð sem er í takt við það sem við öllum í heiminum þurfum. Það fær gleðina alla­vega í Sjáðu,“ segir Anna Þóra.

Hún hvetur fólk til að koma að skoða myndirnar og kíkja inn líka, því þar séu fleiri myndir. Myndirnar voru teknar af ljós­myndaranum Dóru Dúnu og unnar af grafíska hönnuðinum Bobby Breið­holt.

„Þau eru al­geri snillingar og mjög gaman að vinna þetta verk­efni með þeim. Það eru allir að tala mið­bæinn niður en við ætlum alveg að „blasta“ hann og leyfa öllum að njóta fal­legs fólks með fal­leg gler­augu,“ segir Anna Þóra.

Notar hversdagshluti í skreytingar

Spurð hvort hún eigi fleiri upp­á­halds­glugga segir hún að eitt skiptið hafi hún notað kúst­sköft.

„Við settum á þau frauð­plast­kúlur og máluðum jóla­sveina­and­lit. Mamma teiknaði and­litin á og saumaði fal­legar silki­húfur. Það var rosa­lega fal­legur gluggi,“ segir Anna Þóra.

Hún segir að annað ár hafi þau teiknað skíði í gluggann og það hafi þeim þótt mjög skemmti­legt.

„Það er alltaf of­boðs­leg gleði þegar jóla­glugginn fer upp hjá okkur. Á föstu­daginn þegar glugginn fór upp lögðum við á borð í búðinni og vorum með jóla­hlað­borð fyrir starfs­fólkið. Það auð­vitað mega ekki vera fleiri en 10 og ekkert fara út þannig við höfðum góða stemningu fyrir okkur öll saman hér,“ segir Anna Þóra.

Skreytingin er á trúarlegum nótum í ár í Sjáðu.
Myndir/Anna Þóra Björnsdóttir

Hafa aldrei unnið verðlaunin

Hún segir kúnnana oft vera spennta fyrir því sem hún ætli að gera á hverju ári. Hún telur að flesta kaup­menn hlakki til þessa tíma árs og að fá að setja upp flotta jóla­skreytingu í glugganna.

„Þetta eru tíma­mót á hverju ári og það er metnaður. Við erum svo heppin að hafa aldrei unnið verð­launin fyrir flottasta gluggann. En ég hef alltaf sagt að ef ég vinn verð­launin þá ætla ég að hætta að gera gluggann,“ segir Anna Þóra og hlær.

Er það mark­miðið?

„Nei, það er bara að fá kúnnann glaðan,“ segir Anna Þóra að lokum.

Anna Þóra og Gylfi vilja góða jólastemningu í Sjáðu.
Myndir/Anna Þóra Björnsdóttir