Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, segist vera ævinlega þakklát fyrir Tyrfing Tyrfingsson fyrir atvik sem kom upp í menntaskóla.

Dóra Björt er nýbúin að fá ADHD greiningu sem hún segir vera mikinn léttir. Þótt hún hafi ávallt verið með toppeinkunnir í skólum átti hún erfitt með að passa inn í kassann. Hún lýsir leiðinlegu atviki í Menntaskólanum við Hamrahlíð þegar kennari dró verkefnaeinkunnir hennar markvisst niður því honum líkaði ekki vinnuaðferðir hennar.

„Ég mætti snemma í skólann en seint í tímann og var að sjálfsögðu lækkuð í einkunn fyrir lélega mætingu. Það var ekkert mál að hlusta á fyrirlestur en ég átti erfitt með að sitja og vinna verkefni í tíma. Ég gat alveg unnið heima en það fór í taugarnar á kennaranum sem hélt að ég væri með lélegt vinnusiðferði. Hann var farinn að draga mig markvisst niður fyrir verkefni sem voru góð,“ útskýrir Dóra.

Einn daginn brast hún í grát á bókasafninu og kom þá eldri nemandi til hennar og huggaði hana. Reyndist það vera Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld. Hann hvatti hana til að kvarta, sem hún gerði, og eftir athugun á málinu voru grunsemdir Dóru staðfestar og fékk hún að taka 100 prósent lokaverkefni.

„Ég verð ævinlega þakklát fyrir Tyrfing. Hann fékk mig til að standa með sjálfri mér og mótmæla þessu óréttlæti.“