Ljósmyndarinn Kristín Ásta Kristinsdóttir opnaði sína fyrstu einkasýningu, Flóttabörnin okkar, í Gallerí Epal um síðustu helgi. Sýningin samanstendur af ljósmyndum af börnum sem vekja fólk til umhugsunar um málefni flóttabarna. Myndirnar eru úr fókus en litaval þeirra endurspeglar þjóðfána barna sem hafa hrakist frá heimalandi sínu og sótt um vernd á Íslandi.
„Þetta er sama barnið á öllum myndunum. Pælingin er sú, og þess vegna eru þær líka úr fókus, að það skiptir í raun ekki máli hvaða barn þetta er því það á ekki að skipta máli,“ segir Kristín Ásta.

Kristín Ásta útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum í byrjun þessa árs og fjallaði útskriftarverkefni hennar einnig um samfélagsleg málefni. Þar notaði hún hina fornu aðferð camera obscura til að mynda ólík rými þar sem fólk dvelur tímabundið af ólíkri nauðsyn; fangaklefa, íbúð flóttakonu og herbergi á Heilsustofnun í Hveragerði.
„Við það verkefni þá kynntist ég úkraínskri flóttakonu sem er hérna með tvö börn og fékk að mynda heima hjá henni. Við erum góðar vinkonur í dag og þá fór ég að átta mig á því hvað við sem samfélag getum lagt af mörkum. Við getum rifist pólitískt fram og til baka um einhverjar tölur á blaði en við sem samfélag og manneskjur getum gert slatta,“ segir hún.
Kristín Ásta hjálpaði úkraínskri vinkonu sinni við ýmsar athafnir eins og að fara í bankann og leita að íbúð og kveðst þá hafa áttað sig á því hvað það er erfitt fyrir manneskju sem hefur ekkert tengslanet hér á landi og talar ekki tungumálið að komast inn í íslenskt samfélag.
„Þá fór ég að átta mig betur á því hvað þetta er í rauninni rosalegt ástand. Þá fer ég bara að rannsaka þetta og skoða þær tölur sem liggja að baki og hvernig fyrir fólkinu er komið. Svo núna er þetta útlendingafrumvarp þannig að ég svona ákvað að vekja máls á þessari umræðu. Fólk skiptist í fylkingar en við verðum líka að muna að þetta eru bara börn,“ segir Kristín Ásta.
Sýningin Flóttabörnin okkar er opin í Gallerí Epal til 21. mars. Allur ágóði af sölu verkanna rennur til samtakanna Réttur barna á flótta.