Ljós­myndarinn Kristín Ásta Kristins­dóttir opnaði sína fyrstu einka­sýningu, Flótta­börnin okkar, í Gallerí Epal um síðustu helgi. Sýningin saman­stendur af ljós­myndum af börnum sem vekja fólk til um­hugsunar um mál­efni flótta­barna. Myndirnar eru úr fókus en lita­val þeirra endur­speglar þjóð­fána barna sem hafa hrakist frá heima­landi sínu og sótt um vernd á Ís­landi.

„Þetta er sama barnið á öllum myndunum. Pælingin er sú, og þess vegna eru þær líka úr fókus, að það skiptir í raun ekki máli hvaða barn þetta er því það á ekki að skipta máli,“ segir Kristín Ásta.

Kristín Ásta á sýningaropnuninni ásamt Esther Ýr Þorvaldsdóttur, stofnanda samtakanna Réttur barna á flótta, Nour sem kom sem fylgdarlaust barn frá Afganistan, Morgane Priet-Mahéo, stofnanda Réttur barna á flótta og barni hennar.
Mynd/Dagný Skúladóttir

Kristín Ásta út­skrifaðist úr Ljós­mynda­skólanum í byrjun þessa árs og fjallaði út­skriftar­verk­efni hennar einnig um sam­fé­lags­leg mál­efni. Þar notaði hún hina fornu að­ferð ca­mera obscura til að mynda ólík rými þar sem fólk dvelur tíma­bundið af ó­líkri nauð­syn; fanga­klefa, íbúð flótta­konu og her­bergi á Heilsu­stofnun í Hvera­gerði.

„Við það verk­efni þá kynntist ég úkraínskri flótta­konu sem er hérna með tvö börn og fékk að mynda heima hjá henni. Við erum góðar vin­konur í dag og þá fór ég að átta mig á því hvað við sem sam­fé­lag getum lagt af mörkum. Við getum rifist pólitískt fram og til baka um ein­hverjar tölur á blaði en við sem sam­fé­lag og mann­eskjur getum gert slatta,“ segir hún.

Kristín Ásta hjálpaði úkraínskri vin­konu sinni við ýmsar at­hafnir eins og að fara í bankann og leita að íbúð og kveðst þá hafa áttað sig á því hvað það er erfitt fyrir mann­eskju sem hefur ekkert tengsla­net hér á landi og talar ekki tungu­málið að komast inn í ís­lenskt sam­fé­lag.

„Þá fór ég að átta mig betur á því hvað þetta er í rauninni rosa­legt á­stand. Þá fer ég bara að rann­saka þetta og skoða þær tölur sem liggja að baki og hvernig fyrir fólkinu er komið. Svo núna er þetta út­lendinga­frum­varp þannig að ég svona á­kvað að vekja máls á þessari um­ræðu. Fólk skiptist í fylkingar en við verðum líka að muna að þetta eru bara börn,“ segir Kristín Ásta.

Sýningin Flótta­börnin okkar er opin í Gallerí Epal til 21. mars. Allur á­góði af sölu verkanna rennur til sam­takanna Réttur barna á flótta.