Óperuhátíðin Oper im Berg var stofnuð til heiðurs Luciano Pavarotti árið 2007. Stofnandi var Austurríkismaðurinn Ingo Kolonerics. Grace Bumbry hefur verið listrænn bakhjarl hátíðarinnar frá árinu 2009. Á þessum tíma hafa verið settir upp fjölmargir tónleikar og margar óperur fluttar.

Þétt og góð dagskrá

Óperuhátíðin kemur nú með nokkra af söngvurum sínum til landsins og heldur stóra tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík nú á fimmtudag klukkan 20.00. Flytjendur eru auk Davíðs: Paolo Lardizz­one tenór, Ítalíu, Saraï Cole sópran, Bandaríkjunum, og Selin Dagyaran sópran, Tyrklandi. Píanisti er Daniel Ochoa Gaxiola frá Mexíkó.

„Við erum flestöll verðlaunahafar úr alþjóðlegri söngkeppni sem haldin er í Salzburg árlega. Dagskráin er þétt og góð. Við flytjum aríur og hluta úr óperunum La Traviata, Töfraflautunni, La Rondine, La forza del destino, Otello, Turandot, Tosca, I Pagliacci, Lohengrin, Brottnáminu úr kvennabúrinu og fleiri óperum,“ segir Davíð. Hann hefur búið í tvö ár í Salzburg og bjó áður í Tel Avív í Ísrael. Hann segist hafa mikla ánægju af að syngja bassa. „Ég er yfirleitt í hlutverki valdsmanna, presta, kónga eða illmenna sem hafa mikinn karakter.“

Áhugi á samstarfi

Stjórnandi Oper im Berg er fyrrnefndur Ingo Kolonerics, sem er staddur hér á landi í tilefni tónleikanna. Hann hefur verið að kynna sér aðstæður fyrir einhvers konar samstarf við Íslendinga um óperuflutning og ræðir við ýmsa framámenn í tónlistarlífinu hér.

„Við erum að kynna starfsemi okkar og athuga hvort áhugi sé á Íslandi fyrir fleiri tónleikum og óperuverkefnum. Við höfum talað við ýmsa aðila í tónlistarlífinu,“ segir Davíð. Hann segist hlakka til tónleikanna. „Mér líður best á Íslandi og finnst skemmtilegast að syngja hér. Þess vegna fannst mér tilvalið að koma hingað með fólkinu sem ég hef verið að syngja með.“

Spurður hvaða óperuhlutverk honum þyki skemmtilegast að syngja svarar hann: „Ætli það sé ekki kvennabúrsvörðurinn Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu. Ég söng það hlutverk í Þýskalandi og syng aríu úr verkinu á tónleikunum.“

Aðspurður um draumahlutverkið segir hann: „ Ætli það sé ekki Boris Godunov eftir Mussorgsky.“