Einar Kára­son og sænskur þýðandi hans, John Sweden­mark, hafa hlotið al­þjóð­leg bók­mennta­verð­laun Menningar­húss og Borgar­leik­húss Stokk­hólms fyrir skáld­sögu Einars, Storm­fugla. Verð­launin eru veitt fram­úr­skarandi er­lendum skáld­verkum sem þykja sér­lega vel þýdd yfir á sænsku.

Verð­launa­féð nemur 150.000 sænskum krónum, eða rúmum tveimur milljónum ís­lenskra króna, og skiptist það jafnt á milli höfundar og þýðanda. Fyrri hand­hafar þessara verð­launa eru til dæmis Nóbel­skáldið Olga Tokarczuk og Geor­ge Saunders, sem hefur einnig hlotið hin eftir­sóttu bók­mennta­verð­laun Man Booker.

„Með Storm­fuglum blæs Einar Kára­son nýju lífi í klassíska þemað um bar­áttu mannsins við náttúruna. Ör­væntingunni um borð í togaranum í ofsa­veðrinu er lýst á svo hár­beittan hátt að lesandinn finnur ís­kuldann streyma af blað­síðunum. Lestrar­upp­lifun sem fær hárin til að rísa og magnast upp í fram­úr­skarandi þýðingu Johns Sweden­marks,“ segir í rök­stuðningi dóm­nefndar í ár.

Á­samt Storm­fuglum voru bækurnar The Milk­man eftir Anna Burns, sem hlaut Man Booker verð­launin 2018, og hin marg­verð­launaða Days Wit­hout End eftir Sebastian Barry, til­nefndar til verð­launanna.

Storm­fuglar komu út hjá Máli og menningu árið 2018 en hún segir frá ör­væntinga­fullri bar­áttu ís­lenskra sjó­manna við náttúru­öflin. Út­gáfu­réttur skáld­sögunnar hefur verið seldur til fjór­tán landa.