Verbúðarþáttunum lauk á sunnudagskvöld með hádramatískum en nokkuð fyrirsjáanlegum endapunkti þar sem kvótakerfið var keyrt í gegnum Alþingi. And the rest is history, eins og þar segir.

Þættirnir gripu þorra þjóðarinnar heljartökum og hafa jafnvel ratað í þingræður. Meðal annars í fyrstu ræðu varaþingmannsins Halldórs Auðar Svanssonar.

„Þetta eru frábærir þættir sem brjóta blað í íslenskum sögulegum skáldskap. Umfjöllunarefni Verbúðarinnar stendur mér og minni fjölskyldu líka sérstaklega nærri af því að föðurafi minn, Kristján Jón Jónsson, var alla ævi sjómaður á Vestfjörðum og svikin með Gugguna gulu áttu ríkan þátt í því að hann varð afhuga Sjálfstæðisflokknum sem hann hafði þó fylgt að málum lengst af,“ segir Halldór sem vísaði til Verbúðarinnar í sinni fyrstu þingræðu þegar hann spurði Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra um nefnd sem ætlað er að meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins.

„Hann sat meira að segja í bæjarstjórn fyrir flokkinn 1962-1974 en síðari tíma þróun flokksins hugnaðist honum alls ekki. Ég þekki því þessa sögu vel en þökk sé Verbúðinni þá er henni hér með haldið rækilega til haga. Það var líka gaman að fá að kíkja aðeins inn á Alþingi sem varamaður til að fá tækifæri til setja þessa sögu í samhengi við það sem er að gerast í pólitík nútímans.“