Það er gott að dreyma en stundum má líka skoða hið venjulega. Fréttamiðlar básúna yfirleitt upp ef íbúð eða hús kemur til sölu og verðmiðinn er norðarlega við 100 milljónir. Stundum má líka flagga hinu venjulega. Hér er ein slík.

Við Flókagötu í Norðurmýrinni er rúmlega 78 fermetra perla til sölu hjá Stórborg á aðeins sléttar 50 milljónir. Það er nánast gjöf en ekki gjald.

Klambratúnið fagra er hinu megin við götuna.
Baðherbergi er algjörlega endurnýjað, flísalagt og með nýjum tækjum og stórum flísalögðum sturtuklefa.
Eldhúsið er parketlagt og með góðri viðarinnréttingu.

Íbúðin er rúmgóð tveggja herbergja með sérinngangi á jarðhæð hússins sem öll hefur verið endurnýjuð. Hún er laus strax og jafnvel hægt að halda jólin á nýjum stað.

Húsið sjálft er afar virðulegt með glæsilegum frönskum gluggum. Búið er að skipta um frárennslislagnir og yfirfara og endurnýja pípu- og raflögn og tengla. Þak hússins var endurnýjað fyrir nokkrum árum og einnig drenlögn.

Innandyra er ekkert slor heldur gólfhiti, nýtt parket, ný innrétting á baði og eldhúsið er með uppgerðri innréttingu og nýjum vinnuborðum. Uppþvottavél og ísskápur fylgja. Það eina sem er upprunalegt er útihurðin.