Köllum hann Jósef, milljarðamæringinn, blaðamanninn, flóttamanninn frá Venesúela sem ég hitti fyrir utan stærstu flóttamannabúðirnar í Boa Vista, höfuðborg Roraima, nyrsta fylkis Brasilíu, sem liggur að Venesúela. 

„Það er svo skítt heima, það er ekki einu sinni hægt að skeina sig, ekki til klósettpappír.“

Síðan 2013 hefur einn af hverjum tíu íbúum Venesúela eða hátt í fjórar milljónir flúið land. Land sem situr á næstmestu olíubirgðum í heimi á eftir Sádi-Arabíu, og var fyrir aðeins tíu árum ríkasta land Suður-Ameríku.


Hann hafði komið tveimur dögum fyrr, einn af 5.000 flóttamönnum sem streyma daglega yfir landamærin til Brasilíu. „Nei, það er ekkert pláss fyrir mig í búðunum, þær eru bara fyrir fjölskyldur með ung börn, ég … við öll hérna fyrir utan girðinguna, þurfum að bjarga okkur á eigin spýtur. Hér er þó til matur og peningar sem eru ekki verðlausir.“

Venúsúelamenn settu heimsmet í verðbólgu í sumar, þegar hún náði milljón prósentum. Ef þú hefðir skipt milljón dollurum í bolívara, þeirra gjaldmiðil, þegar Nicolás Maduro tók við völdum fyrir fimm árum og skiptir til baka í dag fengir þú 3 dollara og 40 cent; eða 500 kall fyrir þínar 120 milljónir íslenskra króna.


„Þegar ég fór að heiman kostaði heill kjúklingur 14,6 milljónir bolívara, sem er um 15 kíló af þúsund króna seðlum, ef hann var þá til. Mánaðarlaunin voru síðast þegar ég fékk útborgað 50 milljónir, sem dugar fyrir þremur kjúllum og einni vatnsflösku þann mánuðinn.“

Síðan leit hann í kringum sig, horfði á móður drekka vatn úr flösku, meðan kornabarn sem hafði fæðst í skógarrjóðri við landamærin nokkrum dögum fyrr fékk sopa af ylvolgri móðurmjólk. Frænka einhvers sneri snilldarlega við tveimur kjúklingum fyrir nýlenta flóttamenn á tunnuloki, sem lá á brúnni jörðinni milli tveggja polla.


Flóttamennirnir voru mjög áberandi þarna norður frá; gangandi í hópum búnir einum bakpoka og skjóðu, fullri af minningum og myndum frá heimalandinu. Staddir þarna í von um betri tíma, í landi sem var svo líkt en samt svo framandi með annað tungumál, og stjórnarfar.

Það sem af er þessari öld hafa bara fleiri flóttamenn komið frá Sýrlandi, sex milljónir á móti fjórum frá Venesúela.

Hingað til hafa móttökur grannþjóða Venesúela verið til fyrirmyndar en það er að breytast hratt. Ekvador og Perú eru að skella í lás. Brasilía og Kólumbía, sem tekið hafa á móti flestum, eru farnar að ókyrrast. Það er erfitt, flókið og dýrt að taka á móti hundruðum þúsunda flóttamanna sem eiga ekki neitt, ekki einu sinni pappír til að skeina sig.