Leynilögga er fyrsta íslenska kvikmyndin sem kemur í tveimur útgáfum; bannaðri innan sextán og leyfðri tólf ára og eldri. Hallgrímur Kristinsson var fenginn til að tóna myndina niður enda sérfróður um aldursflokkunarkerfið sem stuðst er við á Íslandi.

Hallgrímur Kristinsson, formaður FRÍSK, Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, var kallaður til eftir að skoðunarmaður Sambíóanna komst að þeirri niðurstöðu að banna þyrfti Leynilöggu innan sextán ára og ákveðið var að gera aðra útgáfu sem hæfir áhorfendum tólf ára og eldri.

Þeir eru enda vandfundnir hér á landi sem hafa meiri þekkingu á aldursflokkunarkerfi kvikmynda en Hallgrímur þar sem hann sá um innleiðingu þess árið 2005 og öll samskipti við Hollendinga þangað sem kerfið á rætur að rekja.

Hallgrímur var því leikstjóranum Hannesi Þór Halldórssyni og félögum til halds og trausts og gaf ráð um hvernig hægt væri að milda Leynilöggu.

„FRÍSK í rauninni viðheldur kerfinu og Kvikmyndaskodun.is en hver og einn útgefandi er ábyrgðaraðili,“ segir Hallgrímur. Þannig hafi Sambíóin sem ábyrgðaraðili sinn eigin starfsmann sem sjái um að meta íslenskar myndir út frá aldursflokkunarkerfinu.

Hann útskýrir að kerfið taki mið af áratugarannsóknum á hvaða áhrif það geti haft á börn að horfa á atriði með til dæmis ofbeldi, kynlífi, eiturlyfjum og ótta.

Tónninn skiptir máli

Þegar kom að því að leggja mat á myndina segist Hallgrímur að sjálfsögðu hafa byrjað á því að horfa á hana. „Sem er svolítið súrrealískt. Þú ert einn í kvikmyndasal með tölvu í fanginu að reyna að vinna en samt að reyna að njóta þess að horfa á myndina á meðan þú punktar hjá þér til dæmis atriði með ofbeldi og blótsyrðum,“ segir hann og hlær.

Síðan snýr hann sér að gátlistanum þar sem meðal annars er spurt hvort það sjáist ofbeldi. „Sést blóð? Spýtist blóð? Jaááá, það spýtist blóð þarna í nokkrum atriðum en það þýðir ekki endilega að hún sé 16 plús,“ segir Hallgrímur og bætir við að í þessu samhengi skipti tónninn sem myndin gefur máli.

Ef Vivian Ólafsdóttir myndi skjóta Sveppa í hausinn gætu sekúndubrot ráðið hvorum megin sextán ára aldurstakmarksins myndin hafnaði.

„Að einhver í myndinni sé nakinn þýðir ekkert endilega að hún sé 16 plús,“ segir Hallgrímur. „Er eitthvað sem er að auka eða gera senuna áhrifameiri? Er tónlist eða er atriðið í „slow motion“ eða er verið að skjóta myndavélinni alveg upp að líkamanum? Allt þetta myndi hækka matið gegn því að þú sæir bara nakta manneskju.“

Þetta eigi líka við um ofbeldi í atriðum. „Það er ekki nóg að það sé blóð heldur hvernig það er sýnt. Er þetta ágengt? Ertu að gera eitthvað aukalega til að magna áhrifin af ofbeldinu? Og það voru eitt, tvö atriði,“ segir hann um Leynilöggu.

Sekúndubrot til eða frá

„Þá fór ég til baka og settist niður með þeim og sagði: Ég held að þetta, þetta og þetta atriði séu ástæðan fyrir því að hún endaði í sextán ára. Og ef þeir myndu klippa þess atriði til, þá fæ ég út tólf ára en ekki sextán,“ útskýrir Hallgrímur.

Voru þetta mörg atriði?

„Nei, þetta voru ekkert svo mörg atriði. Það að einhver sé að skjóta mann og annan þýðir ekki að mynd fari endilega í sextán ára. Þú getur haft heilu atriðin þar sem fólk er, ja, ég ætla ekki að segja stráfellt, það er ekki fallegt orð, en þú sérð aldrei blóð. Síðan getur manneskja verið lamin illa en verið búin að ná sér þegar hún mætir í næsta atriði þannig að það amar greinilega ekkert að henni lengur. Þetta hefur allt áhrif.“

Hallgrímur segist aðspurður hafa kunnað vel að meta Leynilöggu. „Ég var einn hlæjandi í bíósalnum, þannig að það segir nú eitthvað,“ segir hann léttur. Hann segist ekki vera búinn að sjá útgáfu myndarinnar sem hann tók þátt í að skapa.

„Ég er ekki búinn að sjá tólf ára myndina en ég er búinn að sjá atriðin sem voru löguð,“ segir hann. Þetta hafi stundum snúist um örlitlar breytingar. „Til dæmis bara að klippa stundum sekúndu fyrr. Þú skýtur af byssunni og þú veist að manneskjan deyr en þú sást ekki blóðið spýtast.“

Leynilögga endaði í tveimur útgáfum eftir að hafa farið í gegnum hollenskt nálarauga Hallgríms.