Það eru ekki margir sem leika sér að því að hlaupa Dyrfjallahlaupið og Laugaveginn á einni viku en það gerði Sigurjón Ernir Sturluson fyrr í þessum mánuði. Bæði hlaupin teljast til utanvegahlaupa en eru að mörgu leyti ólík. Dyrfjallahlaupið er 24 km með mikilli hækkun þar sem hlaupið er í nágrenni Dyrfjalla á Austurlandi. Laugavegurinn er hins vegar 55 km og tengir saman náttúruperlurnar Landmannalaugar og Þórsmörk á sunnanverðu hálendi Íslands. Fyrir vikið er hlaupið af mörgum talið skemmtilegasta hlaupið hér á landi.

Það er áratugur síðan Sigurjón keppti í sínu fyrsta langa utanvegahlaupi en það var einmitt Laugavegurinn árið 2011. „Ég hafði heyrt að hlaupið væri hin mesta áskorun en um leið skemmtilegt. Hlaupið var mikil lífsreynsla, ég kláraði mig alveg og fór í gegnum allt sem hægt var að fara í gegnum í þessu hlaupi: vellíðan og gaman, þreytu, bugun, algjöra bugun yfir langan tíma og loks minn stærsta sigur til þessa.“

Útsýnið eftir 14 kílómetra í Dyrfjallahlaupinu er stórkostlegt.

Fjölbreytt íþrótt

Hann segir utanvegahlaupin vera afar fjölbreytt og huga þurfi að ýmsu í gegnum hlaupið til að ná sem bestum árangri. „Mér hefur alltaf fundist mikið skemmtilegra að hlaupa utanvega í náttúrunni og svo er enginn meiri sigur en að sigrast á afar stórri áskorun sem þú hefur lengi búið þig undir.“

Sigurjón er 31 árs gamall íþróttafræðingur sem rekur eigin líkamsræktarstöð í Grafarholtinu sem heitir UltraForm. Hann byrjaði ungur að hlaupa samhliða körfuboltaæfingum og byrjaði síðan að stunda utanvegahlaup samhliða Boot Camp-þjálfun og lyftingum þegar hann var hættur í körfuboltanum. „Til að gera langa sögu stutta þá er ég í dag farinn úr því að ráða við 5-10 km hlaup yfir í hlaupa allt að 40-50 km í æfingahlaupi og farinn að tækla allt að 100-160 km keppnishlaup með mikilli hækkun.“

Sigurjón Ernir ásamt hlaupafélögunum Gunnari Erni og Guðlaugi eftir Dyrfjallahlaupið.

Afar ólík hlaup

Vikan, þar sem hann hljóp bæði hlaupin, var bæði skemmtileg og krefjandi. „Dyrfjallahlaupið er ótrúlega skemmtilegt hlaup með mikilli hækkun í mjög flottu landslagi. Ég get svo sannarlega mælt með því fyrir alla sem vilja flotta áskorun en þess má geta að einnig er í boði að hlaupa 12 km.“

Hann segir hlaupin vera mjög ólík þar sem Dyrfjallahlaupið einkennist af mikilli hækkun og sé rúmlega helmingi styttra en Laugavegshlaupið. „Þar sem Dyrfjallahlaupið var viku fyrir 55 km Laugavegshlaupið tók ég Dyrfjallahlaupið mjög rólega eða sem æfingu til að spara orkuna fyrir Laugaveginn sem var alvöru keppnishlaup fyrir mig. Dyrfjallahlaupið gekk því mjög vel og einnig Laugavegshlaupið en þar varð ég fimmti í karlaflokki á 4 klukkustundum og 42 mínútum sem var fimmtán mínútna bæting frá því ég hljóp Laugaveginn síðast árið 2017.“

Að auki hefur Sigurjón keppt í ár í Puffin Run þar sem hann hljóp 20 km, Hengli Ultra þar sem hann reyndi við 160 km en þurfti hætta vegna bakverkja og Hvítasunnuhlaupi Hauka þar sem hann hljóp 17,5 km. „Næstu stóru hlaup eru Súlur Vertical á Akureyri þar sem ég mun hlaupa 55 km og svo ætla ég að hlaupa TDS-hlaupið í Frakklandi í ágúst en þar mun ég takast á við 146 km og 9.100 metra hækkun.“

Hér er Sigurjón að klára 55 kílómetra Laugavegshlaupið.

Agaður í íþróttum og mataræði

Undanfarin þrjú ár hefur Sigurjón verið grænmetisæta en tók nýlega fiskinn inn í mataræði sitt. „Ég tók í raun þessa ákvörðun þar sem það var alltaf verið að tala um að það væri ekki hægt að ná árangri á grænmetisfæði. Ég vildi einfaldlega afsanna það og ákvað því bara að prófa það sjálfur. Gegnum árin hef ég verið mjög agaður í bæði íþróttum og mataræði og verið duglegur að tileinka mér þekkingu. Með þekkingu, ákveðni og skipulagi er lítið mál að ná árangri á hvaða mataræði sem er samhliða íþróttum. En það er mikilvægt að huga vel að fitu, próteini, kolvetnum og trefjum samhliða vítamínum og steinefnum.“

Það er gott fyrir byrjendur að kaupa sér góða utanvegaskó og -fatnað. Byrja á því að ganga og skokka rólega utanvega, segir Sigurjón Ernir. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

En hvaða ráð hefur Sigurjón fyrir fólk sem vill kynnast utanvegahlaupum?

„Fyrir þá sem eru á algjörum byrjunarreit þá er gott að kaupa sér góða utanvegaskó, fatnað og byrja að ganga og skokka mjög rólega utanvega. Fyrst um sinn á að einblína á stuttar vegalengdir og bæta svo í samhliða því sem geta og áhugi eykst. Það getur líka alltaf verið mjög gott að leita sér ráða og fá jafnvel hlaupaprógramm eða skrá sig í hlaupahóp. Síðan eru allir velkomnir í UltraForm til að fá góð ráð.“