Í ár skartar hátíðin fjölbreyttu úrvali íslenskra jazztónlistarmanna af ólíkum kynslóðum en einnig koma gestir frá Danmörku og Svíþjóð. Aðgangur er ókeypis. Að þessu sinni fara flestir tónleikar hátíðarinnar fram í Sveinatungu, salarkynnum bæjarstjórnar að Garðatorgi 7.

Einir tónleikar verða í Jónshúsi, félagsmiðstöð eldri borgara.

Hátíðin hefst með tónleikum í kvöld, sumardaginn fyrsta, kl. 20.30. Söngkonan Ellen Kristjánsdóttir leiðir tríó sem meðal annars er skipað eiginmanni hennar, píanóleikaranum Eyþóri Gunnarssyni. Á föstudagskvöldinu 22. apríl kemur fram hin vinsæla danska jazzsöngkona Cathrine Legardh. Hún og Sigurður Flosason eiga að baki langt samstarf og tónsmíðasamvinnu.

Á laugardeginum 23. apríl geta gestir notið jazztónlistar á tvennum tónleikum. Þeir fyrri hefjast kl. 15.00 í félagsmiðstöðinni Jónshúsi á Sjálandi. Þar kemur fram söngkonan Marína Ósk og flytur ásamt valinkunnum hljóðfæraleikurum brasilíska bossanova-tónlist og frumsamin lög í sama stíl. Kl. 20.30 leikur svo hið margreynda tríó Sunnu Gunnlaugsdóttur í Sveinatungu. Sunna hefur leikið mikið erlendis og er einn af máttarstólpum íslensks jazzlífs.

Kynnir verðlaunaplötu

Á sunnudegi kl 17.00 kynnir píanóleikarinn Anna Gréta Sigurðardóttir nýútkomna plötu sína Nightjar in the northern sky en hún var kjörin jazzplata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og Anna Gréta höfundur ársins.

„Þetta eru lög og textar eftir mig sem ég syng og spila á píanó og er með góða hljóðfæraleikara með mér, Skúli Sverrisson og Johan Tengholm eru á bassa, Einar Scheving er á trommum, Hilmar Jensson er á gítar og pabbi (Sigurður Flosason) spilar á saxófón, segir Anna Gréta um þessa fyrstu plötu sína sem jafnframt er verðlaunaplata. Um þessar góðu viðtökur segir hún:

„Það var gaman að finna fyrir stuðningi. Útgáfan var stórt skref fyrir mig og það er mjög persónulegt að syngja eigin texta, ég var smá smeyk en viðtökurnar hafa verið afskaplega góðar.“

Hún segir textana fjalla um allt milli himins og jarðar.

„Titillagið fjallar um nightjar sem er sjaldgæfur fugl á norðurslóðum og leitina að því sérstaka. Umfjöllunarefnin eru alls konar, til dæmis fjallar eitt laganna um svefnleysi. Platan er framleidd af mér og Alberti Finnbogasyni sem sá um upptöku. Það var mjög gaman að vinna með honum.“

Verðlaunuð í Svíþjóð

Anna Gréta, sem er farin að leggja drög að nýrri plötu, hefur búið og starfað í Svíþjóð síðan 2014. „Ég fór í nám í Svíþjóð en það var svo mikið að gera við að spila að ég var lengi að klára skólann. Kærastinn minn er frá Stokkhólmi og við búum þar og ég kann mjög vel við mig í þessari fallegu borg.“

Í Svíþjóð hefur Anna Gréta fengið Monicu Zetterlund-verðlaunin og viðurkenningu jazzklúbbsins Fasching. „Ég er þakklát, þessi velgengni er ekki sjálfgefin. Svíar hafa tekið mér opnum örmum. Þeir halda mikið upp á jazz og eiga frábæra tónlistarmenn á því sviði.“