Kvikmyndin Stjörnustríð – Veldið snýr aftur, eða Star Wars V- The Empire strikes back, verður sýnd í SAMbíóunum Egilshöll miðvikudaginn 8. júlí í sérstakri 40 ára afmælisútgáfu.

Fyrir þá sem ekki þekkja er um að ræða eina af betri kvikmyndum sögunnar sem fjallar um vonlítinn flótta uppreisnarmanna gegn hinu illa Veldi fyrir langa löngu í stjörnuþoku langt langt í burtu.

Logi Geimgengill og Yoda á plánetunni Dagobah.
Skjáskot úr Empire Strikes Back.

Myndin verður frumsýnd í sal 1 þar sem er 200 fermetra tjald. „Það er miklu meira magnað horfa á myndina í bíó en heima í stofu. Það er búið að hreinsa hana alla til, þetta eru sömu gæði og er að finna hjá Disney+,“ segir Jón Geir Sævarsson hjá SAMbíóunum.

Hann veit ekki hversu margar sýningarnar verða en búast megi við fleiri.

SAMbíóin hafa verið að sýna ýmsar eldri myndir upp á síðkastið þar sem búið er að fresta útgáfu margra nýrra kvikmynda vegna COVID-19 faraldursins, þar á meðal nýjustu James Bond-myndinni sem frumsýna átti í apríl.

Lilja prinsessa og Han Solo um borð í Fálkanum.
Skjáskot úr Empire Strikes Back.

„Við erum búin að vera að sýna Lord of the Rings, svo byrjaði Forrest Gump í síðustu viku. Við höfum líka verið að sýna Shining og Shawshank Redemption,“ segir Jón Geir. „Fólk hefur verið að taka mjög vel í þetta og sumar myndir hafa komið okkur á óvart hvað margir hafa komið og séð.“

Hann lofar einstakri upplifun. „Þetta er ein besta mynd allra tíma á stærsta bíótjaldinu á landinu og í besta sal landsins.“