Við höfðum hugsað þetta í mörg ár, að fara á vit ævintýranna eitthvert í betra veður. Svo komu börnin og við vorum með tvö fyrirtæki heima sem gengu vel og aldrei virtist vera rétti tíminn. Einn daginn ákváðum við bara að drífa í þessu og það var pakkað saman húsi og fyrirtæki. Morguninn rann upp sem var brunað til Seyðisfjarðar með fullan bíl af dóti og einum gömlum hamstri sem fékk að fara með okkur, og siglt var með norrænu til Danmerkur,“ útskýrir Birta og segir þau lítið hafa vitað um hvað beið þeirra í nýju lífi.

Þegar þau fengu hús fjölskyldunnar afhent þurftu þau að vaða í gegnum köngulóavefi og metershá strá.

Barcelona varð fyrir valinu og bjuggu þau í borginni fyrsta árið en bauðst svo hús til leigu rétt fyrir utan borgina.“ Húsið var umkringt skógi og náttúru og fannst þeim það henta börnunum betur en borgarlífið og svo fór að þau festu kaup á húsi í sama hverfi. „Lífið hér er afar þægilegt og stressfrítt,“ segir Birta. Börnin eru orðin altalandi bæði á katalónsku og spænsku og fjölskyldan hefur eignast mikið af vinum. „Lífið hér er mikið utandyra og veislur og matarboð eru utandyra stærstan hluta ársins og börnin alltaf með á slíkum mannamótum.“ Birta segist þó oft sakna Íslands og ekki síst þegar kemur að tungumálinu.

Hús fjölskyldunnar stendur hæst á fjalli með mikið útsýni í allar áttir og segir Birta tenginguna við garðinn hafa verið þeim mikilvæg.

Unnu sig í gegnum köngulóarvefina

Eins og fyrr segir festu Birta og Jón Páll kaup á húsi fyrir tveimur árum en það hafði staðið autt án viðhalds lengi vel. „Við þurftum að vinna okkur í gegnum kóngulóarvefina og vaða í metersháum stráum til að komast að innganginum. Húsið stendur á stórri lóð í hverfi í miðjum furuskógi og þurftum við að fjarlægja 16 risastór furutré svo sæist í sólina. Þetta hús hafði samt svo marga kosti. Það stendur hæst á fjallinu með mikið útsýni í allar áttir, sérlega eftir að trén fóru og tengingin við garðinn er okkur mjög mikilvæg. Að geta vaðið inn og út allan daginn beint út í garð er frábært en flest þeirra húsa sem byggð eru í fjöllunum eru á mörgum hæðum og garðurinn því langt fyrir neðan þau.“

Eftir tvö ár er framkvæmdum í húsinu að ljúka en Birta segir þau hjón iðin við að finna sér ný verkefni í húsinu eða garðinum. „Það má alltaf bæta við sig einu stykki gosbrunni, tréhúsi eða bara því sem okkur dettur í hug að gera eða höfum efni á hverju sinni. Við elskum að smíða úti og verjum nánast öllum okkar frístundum utandyra í nýjum verkefnum.“

Framkvæmdum á heimilinu er að ljúka en Birta segir þau hjón þó iðin við að finna sér ný verkefni í húsinu eða garðinum.

Draumurinn varð að veruleika

Birtu hafði lengi dreymt um að gera áhugamálið að atvinnu, að kaupa gömul og illa farin hús, gefa þeim nýtt líf og selja svo aftur. Eftir að hafa gert upp húsið okkar hér úti ásamt nokkrum eignum á Íslandi var ástríðan fyrir þessu meiri en nokkru sinni fyrr. Það er líka óneitanlega skemmtilegra að gera upp hús hér á Spáni heldur en á Íslandi þar sem að veðrið hér býður upp á miklu meira garðævintýri og úti/inni rými.“

Draumur Birtu varð að veruleika að tilstilli kunningja hjóna þeirra, þeim Davíð Mássyni og Lilju Einarsdóttur. „Davíð og Lilja eru miklir heimshornaflakkarar og fannst spennandi að taka þátt í þessari hugmynd. Það sem við komum einnig með að borðinu eru þau sambönd sem við erum komin með hér úti, allt frá lögfræðingum til pípara, allt fólk sem hægt er að treysta. Stærsta áskorunin við að fara í svona lagað á Spáni er að láta ekki svindla á sér, það er alveg lygilegt hvað er reynt og þrátt fyrir að maður sé á varðbergi með belti og axlabönd er alltaf eitthvað sem manni yfirsést.“

Eldhúsið er svo sannarlega hjarta heimilisins.

Þægindi og hreinleiki en mikil sál

Eftir langa og mikla leit að hinu eina rétta húsi til að gera upp og selja, festi hópurinn kaup á húsi í um fimm mínútna akstursfjarlægð frá hinum margrómaða strandbæ Sitges. „Við fengum húsið afhent fyrir um tveimur mánuðum og markmiðið er að það verði komið á sölu fyrir sumarið. Í húsinu eru þrjár íbúðir sem við ætlum að sameina í eina eign. Því voru þrjú gömul eldhús sem við þurftum að rífa niður og þrjú baðherbergi sem við þurfum að gera upp ásamt fullt af veggjum sem þarf að rífa.

Húsið verður nánast gert fokhelt og öllum gluggum skipt út fyrir nýja. Áhersla verður lögð á stórar opnanlegar glerhurðar og garðurinn með sundlauginni verður beint fyrir utan aðalhæðina. Hugmyndin er að aðalrýmið opnist út í garðinn og verði í raun hluti af útirýminu með eldhúsið í miðju alls. Við völdum þetta hús bæði vegna staðsetningar og vegna möguleikanna á að tengja aðalrýmið við garðinn. Stíllinn sem við munum fara í þessu sinni er svona módern/rústik. Með þægindi og hreinleika en mikilli sál.“

Birta og Jón Páll hanna allt sjálf og höfðu baðherbergið í rómantískum stíl.

Njóta þess að vinna saman daglega

Hjónin vinna saman daglega að öllu ferlinu og segir Birta að eftir tveggja áratuga samband njóti þau þess að vinna saman, þau skipuleggi sig vel og skipti verkefnum sín á milli. „Við erum með lítið teymi af fólki sem er að vinna fyrir okkur, þá aðallega í stærri verkin eins og niðurrif á burðarveggjum, múr, lagnavinnu og slíku sem við treystum okkur ekki í. Sjálf erum við svo alltaf á staðnum og sinnum jafnframt hönnuninni og gætum þess að fjárhagsáætlunin standist. „Síðast en ekki síst fer mikill tími í að versla og velja allt sem á að fara í húsið og finna fallega gæðahluti.“

Við erum mjög spennt fyrir þessu verkefni og erum nú í drullugallanum nánast alla daga og meðal annars að henda út gömlu drasli frá fyrri eiganda, en þessu húsi hefur ekki verið sinnt af ást lengi, það var í raun algert ógeð. Við bíðum nú ólm eftir því að fá að byrja að fegra og byggja upp eftir að allur grunnur er kominn. Þegar það verður tilbúið verður það æði,“ segir Birta spennt. Birta segir húsið sem þau nú vinna að, einnig verða auglýst á Íslandi ef einhver skyldi hafa áhuga á því að festa kaup á húsi á Spáni.

Áhugasamir geta fylgst með framkvæmdunum á instagram síðunum: @birta_and_masson @birta_art_living