„Ég hefði ekki getað lent í slysinu á betri stað eða tíma. Það var engu líkara en herskari engla stjórnaði aðstæðum á slysstað,“ segir Sara, sem var að bíða þess að taka vinstri beygju heim til móðursystur sinnar á Ísafirði þegar eldri maður ók aftan á bíl hennar á 70 kílómetra hraða, en við það kastaðist bíll Söru fram um 60 metra og staðnæmdist á bílastæði móðursystur hennar.

„Ég rotaðist við höggið en steig út úr bílnum skammri stund síðar á orginu. Ég man að hafa horft á bílinn fyrir aftan sem þá virtist í órafjarlægð, en ég hafði staðnæmst til að hleypa bíl sem kom á móti fram hjá, áður en ég tók beygjuna. Í honum reyndist vera sjúkraflutningamaður á leið á vakt og ásamt honum komu aðvífandi til hjálpar bæði mamma og pabbi, móðursystir mín og hennar maður, hjúkrunarkona sem býr í húsinu á móti og sjúkraflutningamaður sem einnig býr í nærliggjandi húsi, en líka tveir bílar frá Landhelgisgæslunni sem voru að störfum í bænum,“ segir Sara, sem var umvafin kærleika og send með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Ísafirði.

„Pabbi hringdi í Neyðarlínuna og sjúkraflutningamaðurinn í bílnum á móti sagði við mig: „Sara, ég þarf að skjótast til að sækja sjúkrabílinn og kem svo til að sækja þig.“ Það reyndist þó stutt spítalaferð því ég var komin heim 62 mínútum síðar. Mamma sá að ég var langt frá því að vera eins og ég á að mér að vera og seinna um daginn var ég kölluð inn í myndatöku og nánari skoðun.“

Heilinn, sjónin og hjartað

Í slysinu fékk Sara áverka á bak og öxl. Hún fór í aðgerð á öxl og hefur náð þar nokkuð góðum bata.

„Það sem hefur truflað mig mest eru heilinn og sjónin, sem aldrei verður söm. Ég fékk heilahristing og í kjölfarið heilahristingseinkenni, sem geta verið margvísleg. Mér hefði aldrei dottið í hug að heili minn, augu og hjarta myndu bila eftir árekstur þar sem enginn brotnaði, blæddi eða dó, en heilinn er stjórntæki líkamans og þegar hann verður fyrir áverka getur það haft ófyrirsjáanleg áhrif,“ segir Sara, sem fann fljótlega fyrir einkennum frá hjarta eftir slysið og var greind með POTS-heilkenni.

„Það er ástand sem hefur áhrif á blóðflæði, venjulega með svima, yfirliði og óþægilegum, hröðum hjartslætti þegar upp er staðið úr liggjandi eða sitjandi stöðu. Hjá heilbrigðu fólki dælir hjartað blóði frá fótum jafnóðum og sest er upp, en POTS veldur því að hjartað erfiðar svo mikið að púlsinn rýkur upp í 140 slög við það eitt að standa upp,“ útskýrir Sara, sem þarf að taka hjartalyf það sem eftir lifir.

Sjón hennar breyttist líka snöggt og hefur Sara verið í sjónþjálfun síðan slysið varð í ágúst í fyrra.

„Eftir slysið fékk ég lesgleraugu og eftir sjónþjálfunina er ég komin með tvískipt gleraugu. Lengi vel sá ég hlutina ekki á réttum stöðum og var mikið í því að hella niður og brjóta hluti þegar sjónin sveik mig og munaði tíu sentimetrum á staðsetningu hluta og því sem ég sá, en það er orðið miklu betra eftir sjónþjálfunina og ekki nema þrír millimetrar í dag. Ég varð líka mjög ljósfælin og er enn með alla skjái á dimmustu stillingu til að geta horft með góðu móti,“ greinir Sara frá.

Kippt snögglega út úr lífinu

Höggið við áreksturinn var harkalegt, þungt og afdrifaríkt, og báðir bílarnir eyðilögðust.

„Ég man að mér fannst ég hafa sloppið vel fyrir horn og mat það sem svo að ég yrði orðin jafn góð eftir viku. Þar hafði ég rangt fyrir mér. Þetta er langerfiðasta verkefni sem ég hef fengið í lífinu og kom sannarlega aftan að mér. Manni er hreinlega kippt út úr lífinu, en þótt ég sé ekki orðin 100 prósent góð er ég örugglega nálægt 70 til 80 prósentum af því sem ég var,“ segir Sara, sem starfar við Hraunvallaskóla í Hafnarfirði.

„Ég var í veikindaleyfi fram í janúar þegar ég kom aftur í hálfs­dags vinnu, þangað til ég fór í aðgerðina, og nú í vikunni fékk ég 100 prósent starfshæfnivottorð, 309 dögum eftir slysið. Ég get því unnið fullan vinnudag en ekki meira en það. Áður vann ég tíu til tólf tíma á dag, fór þaðan í ræktina og var mjög félagslega virk, en nú er ég úrvinda að vinnudegi loknum. Ég fór frá því að mæta sex sinnum í viku í ræktina yfir í að labba 200 metra og fá þá hausverk, sjóntruflanir og ógleði. Þá fer hávaði og áreiti illa í mig, en ég vinn með kátum krökkum og mikið í kringum körfuboltann hjá Haukum og KKÍ og nota þá eyrnatappa og hjálpartæki sem létta mér lífið. Þetta er því mikil breyting á lífinu, en ég geri það sem ég vil á góðum degi þótt því fylgi iðulega einhver fórnarkostnaður og ég verði örmagna á eftir.“

Full vonar og bjartsýni

Batinn hefur gengið vel eftir þrotlausa vinnu og Sara lítur framtíðina björtum augum.

„Ég ákvað strax að fara í gegnum þetta verkefni með jákvæðni að vopni. Ég er þakklát fyrir að vera þolinmóð að eðlisfari og það hefur hjálpað mér mikið. Ég er mikil markmiðakona og held dagbók fyrir markmið sem ég set mér hvern dag, og ég hef alltaf farið á fætur og klætt mig í stað þess að liggja í rúminu í vonleysi. Ég veit að þetta verður allt í lagi og mér mun halda áfram að batna. Ég þarf bara að lifa lífinu aðeins öðruvísi en ég gerði. Ég þakka líka fyrir að hafa verið líkamlega og andlega sterk fyrir slysið og að hafa átt bjartsýni og von í brjósti mér,“ segir Sara.

Hún hvetur þá sem eru með ákominn heilaskaða að vera ófeimnir að spyrja spurninga og leita ráða.

„Það veit enginn hvernig hann á að komast í gegnum þetta fyrir fram. Manni finnst maður kannski vera einn í heiminum, en er það alls ekki. Það er líka um að gera að vera opinn með líðan sína, hvort sem maður á góðan dag eða ekki. Það er gott að ræða hlutina og ef ég get hjálpað öðrum með minni sögu er það frábært.“ ■