Breska blaðið The Telegraph fékk lækninn Dr. Justine Setchell við King Edward VII sjúkrahúsið í London sem jafnframt er aðili að Breska breytingaskeiðs samfélaginu, The British Menopause Society, til að brjóta á bak aftur nokkrar mýtur sem tengjast breytingaskeiðinu.

Breytingaskeiðið hefst alltaf eftir fimmtugt

Meðalaldur kvenna við upphaf breytingaskeiðs er 51 ár þó flestar konur upplifi þessar breytingar á aldrinum 45 til 55. Snemmbreytingaskeið getur þó hafist hvenær sem er eftir fertugt og ótímabær bilun eggjastokka getur átt sér stað hvenær sem er. Það er sérlega mikilvægt fyrir yngri konur að leita sérfræðiaðstoðar þar sem estrógenskortur getur leitt til alvarlegs vanda eins og beinþynningar.

Konur á breytingaskeiði upplifa hitakóf

Eitt algengasta einkenni breytingaskeiðsins er hitakóf (og nætursviti). En alls ekki allar konur upplifa þetta. Sumar konur einfaldlega sigla auðveldlega í gegnum breytingaskeiðið á meðan aðrar eru afskaplega veikburða. Einkennin geta verið allt frá skapsveiflum til liðaverkja. Það upplifa ekki allar hitakóf – og mikilvægt er að hafa í huga að einkennin eru margvísleg.

Meðalaldur kvenna við upphaf breytingaskeiðs er 51 ár þó flestar konur upplifi þessar breytingar á aldrinum 45 til 55. Nordicphotos/Getty

Kynorkan minnkar

Það er algengt að konur upplifi minnkaða kynhvöt á meðan á breytingaskeiði stendur og er það skortur á estrógen eða testesteróni sem veldur því. Dr. Setchell segir þessa minnkuðu löngun geti einnig orsakast af leggangaþurrki – enn einu einkenni breytingaskeiðsins – sem getur orðið til þess að kynlíf veldur óþægindum. Fjölmargar konur segja löngunina minnka og kynlíf verða óþægilegt á meðan aðrar segja kynlífið blómstra á þessum tíma og tengja það við að ekki sé lengur þörf á getnaðarvarnaáhyggjum og því að börn hafi fullorðnast og jafnvel flutt að heiman.

Einkennin eru öll líkamleg

Fjölmörg einkenni eru líkamleg svo sem hitakóf, leggangaþurrkur og höfuðverkur. En konur geta einnig upplifað skapsveiflur, þunglyndi og kvíða og jafnvel „heilaþoku“. Dr. Setchell segist hafa upplifað þetta síðastnefnda hjá fjölmörgum framakonum. „Þær hreinlega eiga erfitt með að forma hugsanir sínar. Þær finna jafnvel ekki réttu orðin og það getur verið einkenni breytingaskeiðsins og gæti jafnvel orsakast af svefnleysi og þreytu.“

Allur gangur virðist vera á því hvort kynlöngun kvenna minnki á breytingaskeiðinu eða hún hreinlega blómstri. Nordicphotos/Getty

Breytingaskeiðið minnkar blæðingar

Því miður er þetta ekki alltaf staðreyndin. Sumar konur upplifa að blæðingar minnka jafnt og þétt þar til þær hætta alveg. En fyrir aðrar konur geta tíðahvörf verið erfiður tími þar sem blæðingarnar verða meiri og sársaukafyllri. Þær verða sem sagt verri áður en þær verða betri.

Breytingaskeiðið stendur aðeins yfir í nokkur ár

Það getur verið misjafnt hversu langan tíma þetta skeið stendur yfir. Sumar konur upplifa það að blæðingar hætti skyndilega án þess að þær hafi fundið fyrir nokkrum einkennum. Aðrar finna fyrir einkennum tíðahvarfa í allt að tíu ár áður en af þeim verður endanlega. Meðallengd skeiðsins er í kringum fjögur ár. Talað er um að breytingaskeiðinu sé lokið þegar kona hefur ekki haft blæðingar í 12 mánuði.

Vefsíða Breska breytingaskeiðs samfélagsins: https://thebms.org.uk/