Viðbrögð ljóðskáldsins og bókasafnarans Valdimars Tómassonar við fordæmalausu Covid-fárinu eru skáldleg, eins og við var að búast, en hann hefur undanfarið birt í áföngum á Facebook kvæðabálkinn Veirufangar.
„Í raun og veru er þetta kvæða-bálkur undir sama hætti og Áfangar eftir Jón Helgason,“ segir Valdimar, þannig að Veirufangarnir hans eru síður en svo úr lausu lofti gripnir.
„Hvert erindi felur í sér tilvísun í áðurnefndan kvæðaflokk Jóns, í sömu röð. Flokkurinn endurspeglar núverandi ástand og ber saman líf undir þaki veirunnar og áður, líkt og fyrrnefndur kvæðaflokkur ber saman og vísar til fyrri tíðar,“ segir Valdimar í samtali við Fréttablaðið.
Veira veltir þungu hlassi
Aðspurt segir skáldið tíðarandann beinlínis kalla á kvæði. „Maður sér svo mikla hverfingu á háttalagi manna að maður getur ekki setið á sér. Að eitt veirukvikindi skuli setja heiminn á endann og fólk skuli flýja frá efnisheiminum, græðginni, og allt í einu sjá að lífið er einhvers virði líka,“ segir Valdimar um þetta fádæma ástand sem sýni svo skýrt hversu fallvaltur hinn kviki og innantómi efnisheimur er.
„Þannig að maður sér að laun heimsins eru ekki bara vanþakklæti heldur að innviðirnir sem virka eru uppbygging hins huglæga heims. Ekki efnisleg gæði, merkjavara og svoleiðis tilvistarhjóm.“
Valdimar leggur áherslu á að tilbrigði hans við Áfanga Jóns Helgasonar sé ort af djúpri virðingu fyrir skáldinu sem hann hafi í hávegum. „Það er ólæs maður sem ekki nýtur kveðskapar Jóns Helgasonar. Það er svo rammlega kveðið og svo íslenskt sem frá Jóni kemur,“ segir hann og víkur að öðrum skáldjöfri.
„Nú gengur maður um mannauð stræti eins og skáldið Einar Benediktsson orti: „Frá langri nótt gekk ég mannauð stræti.“ Maður upplifir stemningar úr Einræðum Starkaðar,“ segir skáldið sem þrátt fyrir að vera undir fimmtugu man þá tíð er borgarbragurinn var kóvi líkastur.
Kvíðaklámvæðingin
„En samt eru þetta hlutir sem maður upplifði niðri í bæ á tíunda áratugnum eftir lokanir búða, á kvöldum og sunnudögum. Þetta er eiginlega alveg sama nándin og ekkert ólík tilvera. Þá sátu menn bara inni yfir sjónvarpsveirunni og léttvægu froðusnakki RÚV og Stöðvar 2 og orðræða manna miðaðist við afþreyingarefni þar en nú nærist fólk á einhverju kvíðaklámi.“
Valdimar hefur á síðum Fréttablaðsins og víðar verið kallaður Metsölu-Valdi og ekki að ósekju þar sem hann hefur undanfarin misseri dvalið langdvölum í efstu lögum sölulista ljóðabóka. Valdi selur þó bækur sínar ekki síst sjálfur á förnum vegi þannig að ætla má að veiruógnin komi illa við ljóðahagkerfið?
„Ljóðskáldið er alltaf jafn launalaust sama hvort það er góðæri eða kreppa,“ svarar Valdi sposkur. „Þannig að maður fór aldrei út í kveðskap eða ljóðlist út af því að maður héldi að maður drægi einhvern sporð á land eða þar væru rjómi og rækjur uppi á borðum,“ segir Metsölu-Valdi sem óbugaður og ósmeykur heldur áfram mannlífsrannsóknum sínum á auðum götum Reykjavíkurborgar.
Veirufangar
Eftir Valdimar Tómasson