„Þetta gengur upp eins og venjulegur spilastokkur nema að það er bara verið að spila með plöntutegundir,“ segir Guðrún Bjarnadóttir náttúrufræðingur um Flóruspilið sem er í raun spilastokkur þar sem veiðimaður er spilaður með íslenskar plöntutegundir og meðfylgjandi fróðleik um plöntutegundirnar.

Þá hefur hún einnig gefið út sérstaka barnaútgáfu af spilinu sem hún kallar Blómaspilið. „Þetta er í raun bara metnaður hjá mér til þess að kenna fólki og fræða um náttúruna okkar,“ segir Guðrún.

Hún hefur undanfarið kennt grasafræði við Landbúnaðarháskólann og segir spilið henta hverjum sem er. „Almennt er plöntuþekking frekar lítil. Við búum í borgum og erum komin í burtu frá náttúrunni.“

Guðrún rekur einnig jurtalitunarvinnustofuna Hespuhúsið í Ölfusi. „Fólk getur komið og kíkt í pottana og fræðst um þessa gömlu handverkshefð og spjallað um jurtir.“

Guðrún segist hafa fengið góð viðbrögð við spilinu. „Alveg ótrúlega góð. Ég pantaði skammt sem ég hélt að myndi duga til jóla en hann kláraðist á fimm vikum,“ segir hún. Spilið fæst víða en finna má sölustaði á hespa.is. Spilið gerði Guðrún á íslensku, ensku og pólsku.

Blómaspilið er svo kjörið fyrir börn, að sögn Guðrúnar. „Það er samstæðuspil og fyrir börn niður í þriggja ára. Þar er bara nafnið á tegundunum svo það sé hægt að byrja snemma að heilaþvo ungviðið.“