Þær fréttir voru að berast frá Vestmannaeyjum að hald­in verði dýrðleg mat­ar­hátíð dagana 8.-10. sept­em­ber næst­kom­andi. Hátíðin hef­ur hlotið nafnið MAT­EY en þar munu veit­ingastaðir, fisk­fram­leiðend­ur og þjón­ustuaðilar í sjáv­ar­sam­fé­lag­inu taka hönd­um sam­an til að leiða sam­an úr­vals hrá­efni og framúrsk­ar­andi matreiðslu.

Veit­ingastaðir bæj­ar­ins verða þar í aðalhlut­verki en Vest­manna­eyj­ar voru til­nefnd­ar til nor­rænu mat­ar­veðlaun­anna Emblu árið 2021 sem besti mataráfangastaður­inn á Norður­lönd­un­um. Fjöl­breytt flóra veit­ingastaða og gæði veit­ingastaðanna spiluðu þar lyk­il­hlut­verk en veit­inga­sen­an þar er framúrskarandi og hefur vakið athygli víða.

Veit­ingastaðirn­ir GOTT, Slipp­ur­inn, Einsi kaldi og Næs munu af þessu til­efni bjóða upp á mar­grétta sér­seðla sem sem út­færðir verða af nokkr­um af bestu mat­reiðslu­mönn­um Norður­landa sem munu mæta sem gesta­kokk­ar á hátíðina. Að auki verður boðið upp á sérrétti á Tang­an­um, Kránni, Píst­us­gerðinni, Cant­on og Brot­h­ers.

Fyr­ir­tæki á svæðinu munu taka virk­an þátt í hátíðinni á borð við Ísfé­lagið, VSV, Leo Sea­food, Grím kokk, Mar­hólmi og Iðunn Sea­food.

Hér er á ferðinni matarhátíð sem enginn matgæðingur ætti að láta framhjá sér fara því það er deginum ljósara að þarna verður sælkeramatur í boðið úr besta hráefninu sem völ á þessum slóðum.