Payal, sem kemur frá Manchester, er mikið náttúrubarn. „Ég elska að fara í langa göngutúra og verja tíma í náttúrunni. Ég er búin að vera að búa til kerti og ilm í kjallaranum okkar ásamt vini. Við gerðum einn úr grenitré í garðinum. Ég hef líka prófað mig áfram í að búa til kerti, varasalva og líkamsskrúbb úr kaffikorginum frá kaffihúsinu Bismút. Ég legg stund á búddisma um þessar mundir.“

Bjarni er á heimaslóðum en hann er fæddur og uppalinn í Vesturbæ. „Ég er kvikmyndatökumaður, elska að verja tíma í eldhúsinu og leika mér með lestalíkön.“

Payal hefur undanfarið prófað sig áfram í kerta- og ilmgerð ásamt því að kynna sér búddisma.

Birta og mótvindur

Íbúðin markaði upphaf sambúðar þeirra Payal og Bjarna. „Við fluttum hingað fyrir níu mánuðum síðan. Eftir að við tókum ákvörðun um að búa saman fórum við að líta í kringum okkur og heyrðum að þessi íbúð væri að losna. Við drifum okkur í að skoða hana og féllum strax fyrir henni.“

Gatan hafði löngum heillað. „Við höfum bæði verið hrifin af Seljavegi í þó nokkurn tíma og höfðum góða tilfinningu fyrir íbúðinni. Öðrum megin er garður með fallegu tré og sjó og hinum megin er Snæfellsjökull. Stórir gluggar með mikilli birtu og frábær mótvindur.“

Stofan skartar meðal annars bókum, plöntum og listaverkum.

Húsið sem þau búa í er nærri aldargamalt. „Það var byggt árið 1929, og raunar öll gatan, höldum við. Flestar íbúðirnar hérna eru keimlíkar.“

Payal og Bjarni hafa ekki staðið í miklum framkvæmdum en hafa aðeins breytt og bætt við í eldhúsinu. „Við erum bæði mjög hrifin af því að elda og prófa okkur áfram í eldhúsinu svo að ég smíðaði aukageymslu fyrir öll kryddin okkar – við gætum opnað verslun – og aukaeldhúsbekk sem hægt er að sitja við og njóta notalegrar máltíðar,“ segir Bjarni.

„Það eina sem er á dagskrá er að setja upp skjávarpa og rafdrifið skjávarpatjald innfellt í loftið á dyragættinni á milli svefnherbergisins og stofunnar. Það yrði nægilega stórt svo hægt væri að horfa á kvikmyndir úr báðum herbergjum. Við elskum bæði að horfa á kvikmyndir og heimildamyndir,“ svara þau spurð að því hvað sé efst á óskalistanum.

Heimilið iðar af bæði list og lífi.

Notalegt og glaðlegt

Hvernig mynduð þið lýsa andrúmsloftinu á heimilinu?

„Huggulegt, bjart, skemmtilegt og góðir straumar. Við tókum okkur ekki of hátíðlega á meðan við skreyttum og fannst ekki að þetta þyrfti endilega að endurspegla allar hliðar persónuleika okkar. Við vildum bara að það væri notalegt og glaðlegt.“

Listin sem prýðir heimilið kemur úr ýmsum áttum. „Ég er hrifin af því að bjóða fram vinnu í skiptum fyrir listaverk og hef þannig sankað að mér verkum frá listamönnum sem ég kann að meta,“ segir Bjarni. „Ég er fylgjandi því að styðja við listamenn þegar þeir þarfnast þess helst – á meðan þeir eru á lífi. Ég ákvað fyrir nokkrum árum að láta verk fylgja orði í stað þess að hrósa þeim bara,“ segir Payal.

Hver er þeirra uppáhaldsstaður á heimilinu?

„Sófinn undir glugganum er mitt yfirráðasvæði,“ svarar Bjarni. „Ég elska að sitja við borðið og horfa út í garð,“ segir Payal.

Birtan flæðir inn um gluggana.

Veggteppi og lestalíkön

Payal segir þau ekki geta valið einhvern einn uppáhaldshlut en nefnir þó einn sem á sérstakan stað í hjarta þeirra. „Þeir eru of margir til þess að velja einhvern einn en við elskum veggteppið fyrir ofan rúmið okkar. Ég keypti það í Wisconsin í Taliesin, vinnustofu Frank Lloyd Wright. Það er úr verki hans Saguaro Forms and Cactus Flowers frá árinu 1926. Bjarni smíðaði festinguna fyrir veggteppið úr tveimur bútum af lignum-viði en það er einn sterkasti viður veraldar.“

Safnið þið einhverju?

„Ég safna lestalíkönum, mynda-vélum og linsum,“ svarar Bjarni.

„Og ég dóti sem ég finn í fjörunni. Við hrífumst bæði af furðuhlutum sem við finnum á flóamörkuðum hérna heima og á ferðalögum. Ein af uppáhaldsbúðunum okkar er Hertex,“ svarar Payal.

Hvað veitir ykkur innblástur? „Falleg birta, sögur, sannar og skáldaðar, rammar mynda og lita.“

Bjarni er mikill áhugamaður um lestalíkön.
Heimili Payal og Bjarna er einstaklega litríkt og notalegt.
Veggteppið fallega.
Andrúmsloft heimilisins er hlýlegt.