Systkinin Linda Ýr Stefánsdóttir og Jóhann Hjörtur Stefánsson Bruhn eru bæði vegan. Linda tók stóra skrefið árið 2018 en Jóhann á síðasta ári.

„Við erum sammála um að það hafi verið vegna samkenndar með dýrum og loftslagsbreytinga. Veganismi er rökréttasta ákvörðun sem við bæði höfum tekið og höfum aldrei litið til baka,“ segir Linda.

Smákökubakstur fyrir jólin er rík hefð innan fjölskyldunnar að sögn Jóhanns.

„Við höfum alltaf haldið í þá hefð að baka klassískar smákökur með mömmu sem er einnig orðin vegan.“

Þau segjast vera mest spennt fyrir því að smakka á ólíkum jólasteikum fyrir jólin.

„Við erum ansi mörg sem erum vegan í kjarnafjölskyldunni. Því höfum við tækifæri til þess að kaupa nánast eitt stykki af hverri vegan jólasteik á markaðinum til að smakka. Við erum sérstaklega spennt fyrir endurbættri uppskrift af hangirúllunni frá Jömm.“

Hér að neðan gefa systkinin nokkrar vegan uppskriftir fyrir jólin.

Ofnbakað blómkál.

Ofnbakað blómkál

1 blómkálshöfuð

1 dl olía

2 msk. Dijon-sinnep

2 msk. púðursykur

3 tsk. chipotle-mauk

Salt og pipar eftir smekk

Sjóðið blómkálshöfuð í söltu vatni í tíu mínútur. Á meðan er olíu, sinnepi, púðursykri, chipotle-mauki, salti og pipar hrært saman í kryddlög. Setjið blómkálshöfuðið í eldfast mót og dreifið kryddlegi vel yfir. Bakið í ofni á 200°C í u.þ.b. fimmtán mínútur eða þar til kryddlögurinn hefur brúnast.

Vegan uppstúfur fer vel með vegan jólasteikinni.

Uppstúfur

40 g smjörlíki

30-40 g hveiti, eftir smekk

20 g sykur (eða eftir smekk)

500 ml haframjólk

Fyrst skal bræða smjörlíkið í potti og strá svo hveiti yfir meðan hrært er. Þegar smjörlíki og hveiti hafa myndað deig sem losnar frá pottinum er haframjólkinni hellt rólega í pottinn og hrært saman við. Bætið sykri við eftir smekk og hrærið stöðugt við suðu á lágum hita í tíu mínútur eða þar til hveitibragðið er horfið.

Fjölskyldan bakar jólasmákökur fyrir hver jól. Syst­kinin eru búin að „veganæsa“ eldri uppskriftir móður sinnar.

Jólasmákökur

250 g hveiti

250 g púðursykur

120 g smjörlíki

1 egg replacement (notuðum Bob’s Red Mill úr Vegan búðinni)

15 g lyftiduft

½ tsk. matarsódi

2 tsk. kanill

2 tsk. negull

2 msk. haframjólk

Blandið þurrefnum fyrst saman og bætið svo öðru hráefni út í. Hnoðið deigið vel og rúllið í lengju sem er um 4 cm í þvermál. Kælið deigið í 10 mínútur áður en það er skorið í sneiðar sem eru ca ½ cm á breidd. Raðið sneiðum á ofnplötu og bakið við 175 gráður í tíu mínútur.