Margrét Weisshappel er grafískur hönnuður sem m.a. hefur hannað boli og plaköt með skemmtilegum áminningum um vegan lífsstílinn. 

Hvenær og hvers vegna gerðistu vegan?

Árið 2007, þá 16 ára, gerðist ég grænmetisæta. Ég tók ekki út mjólk og egg fyrr en árið 2014 sem rannsókn á meðan ég skrifaði BA ritgerð mína, Vísvitandi vanþekking ; siðleysi í auglýsingum gagnvart dýrum. Eftir þá rannsóknarvinnu gat ég ekki hugsað mér að borða dýraafurðir aftur.

Hverju breytti sú ákvörðun?

Mér finnst ágætt að geta neitað þeyttum-rjóma-marengskökum í veislum án þess að móðga nokkurn.

Hvað hefur verið stærsta áskorunin við lífsstílinn?

Stærsta (og leiðinlegasta) áskorunin er að tala við fólk þegar mataræði mitt ber á góma. Ég furða mig á því af hverju afi minn veit allt í einu svona mikið um næringarfræði, maður sem hefur aldrei þurft að pæla í eldamennsku. Eða þegar frænka mín segist hata svona öfgar. Eða frændi minn sem býður mér blóm í vasa á borðinu að borða. Mér finnst ég oft þurfa að verja ákvarðanir mínar, sem er þreytandi því ekki set ég út á fólk sem reykir, drekkur kók, borðar ekki glútein o.s.frv. enda kemur það mér ekkert við. Þetta er hint – þið frændfólk sem lesið þetta vitið hver þið eruð. Sjáumst í næstu veislu!


Baunalaus karríréttur

Minn „go to” réttur þessa dagana er karríréttur, engar áhyggjur, hann er baunalaus.

Skerið niður grænmeti, sjálfri finnst mér best að nota gulrætur, kúrbít, sveppi og brokkolí en það er um að gera að nota það sem til er í ísskápnum. Raðið á plötu eða í eldfast mót, ólífuolíu og salt yfir og eldið í ofni við 180 gráður í um 20 til 30 mínútur.

Karrí sósa

1 laukur

Hnífsoddur engifer

1-2 hvítlauksrif

1 dós Kókosmjólk

1 tsk - 1 msk Karrý paste (fer eftir smekk, ég fíla ekki sterkt svo ég nota 1 tsk)

1/2 tsk Cumin

1 tsk Túrmerik 

1/2 tsk paprikukrydd

Salt og pipar eftir smekk 

Byrjið á að steikja lauk, hvítlauk og engifer í olíu. Bætið svo öllu hinu út í og leyfið að malla í smástund.

Sjóðið hrísgrjón skv. leiðbeiningum á pakka - mega vera hýðis, hvít eða svört eða hvað sem ykkur þykir gott.

Setjið á disk ásamt grjónum og karrísósu og skreytið með ferskum kóríander