Nýir jólasveinar og jólastúlkur eru nú á leið til byggða. Fram kemur í tilkynningu frá Samtökum grænkera á Íslandi að jólasveinarnir og -stúlkurnar séu bæði væn og græn og hverra manna hugljúfust. Þau hvetja fólk til að borða ekki vini sína á jólunum.

Fyrstur til byggðar er Lambafrelsir, en eins og nafnið gefur til kynna þá borðar hann ekki lömb, heldur frelsar þau. Á morgun er síðan von á Hænuhvíslu sem hvíslar að hænunum og klappar jólakettinum sem „er steinhættur að éta börn og malar nú upp við ofn.“

Samtökin fengu listamanninn Árna Jón Gunnarsson til að teikna jólaverurnar og hér að neðan má sjá þær fyrstu tvær. Þau Lambafrelsi og Hænuhvíslu.

Valgerður Árnadóttir hjá Samtökum grænkera segir að hugmyndin hafi kviknað upprunalega hjá Sigvalda Ástríðarsyni en í framhaldi af því hafi þau sem eru í samtökunum, ásamt fjölda vina sinna, unnið að því í sameiningu að finna nöfn á verurnar.

„Jólaverurnar munu birtast einar af öðrum á síðu Samtaka grænkera og þar gefst fólki kostur á að semja um þau vísur. Einnig verða í boði jólakort og merkimiðar á næstu dögum,“ segir Valgerður Árnadóttir sem situr í stjórn samtakanna í samtali við Fréttablaðið.

Valgerður segir að hún hafi spreytt sig á að semja vísu um þau fyrstu sem eru á leið til byggða. Vísurnar má sjá hér að neðan. 

Eins og fyrr segir geta allir tekið þátt og spreytt sig á vísnagerðinni hér á Facebook-síðu samtakanna.

Lambafrelsir

Lambafrelsir er fyrstur, lætur ei neitt í té.  
Hann laumast í fjárhúsin og frelsar þar fé. 
Hann vill kemba ánum, þá er þeim ekki um sel, 
því ullin er svo þæfð, það gengur nú ekki vel.

Hænuhvísla

Hænuhvísla er önnur með gráa hausinn sinn,
hún skríður ofan úr gili og skýst í kofann inn. 
Hún hvíslar að hænunum og gerir með þeim plan, 
að stinga af úr kofanum við fyrsta hanagal.

Þrettán jólaverur á leið til byggða

Jólaverurnar eru þrettán, eins og hinir vel þekktu jólasveinar, og hér að neðan má sjá hvað þau heita öll og hvenær er von á þeim til byggða.

01 Lambafrelsir (11. des)

02 Hænuhvísla (12. des)

03 Ljúfur (13. des)

04 Þarasmjatta (14. des)

05 Hafraþamba (15. des)

06 Berjatína (16. des)

07 Tófúpressir (17. des)

08 Hummusgerður (18. des)

09 Vökvareykir (19. des)

10 E-efnagægir (20. des)

11 Raknakrefur (21. des)

12 Plöntuklókur (22. des)

13 Smjörlíkir (23. des)

Nánari upplýsingar um Árni Jón Gunnarsson, listamanninn sem teiknaði verurnar, er að finna hér.