Anna Lind Fells, functional medi­cine heilsuþjálfi, einkaþjálfari og jógakennari með meiru, gaf í síðustu viku út rafbókina Er vegan mataræði heilbrigt fyrir Íslendinga? Bókin fjallar meðal annars um vegferð hennar á vegan mataræði með ýmsum fróðleik sem hún hefur viðað að sér í gegnum árin varðandi heilsusamlegt mataræði, næringarefni og heilsu almennt.

„Í bókinni fer ég meðal annars yfir margar mýtur sem hafa verið í gangi, eins og hvort mettuð fita sé óholl eða hvort kjöt er krabbameinsvaldandi,“ segir Anna Lind sem hafði verið á hráfæði um skeið þegar hún gerðist vegan og sannfærðist um að það mataræði væri það eina rétta. Hún sagði meðal annars frá jákvæðum áhrifum vegan lífsstílsins í Fréttablaðinu 2018 en segist síðar hafa áttað sig á því hversu kjöt væri henni mikilvægt.

Hún telur vegan mataræðið hafa haft skaðleg áhrif á alla hennar líkamsstarfsemi og byggir þá kenningu á námi sínu í því sem kallast „functional medicine“ og kemur mikið við sögu í uppgjöri hennar við vegan lífsstílinn í rafbókinni.

Heitt umræðuefni

„Ég er búin að læra ótrúlega margt í þessu námi og eins og ég kem inn á í bókinni þá lærði ég í gegnum „functional medicine“ að hlusta á hvað minn líkami þarf og hvað við erum öll mismunandi. Ég hef alls ekkert á móti vegan mataræði og er einfaldlega að deila því sem ég hef komist að á minni sex ára vegferð.

„Algengt er að einstaklingar byrji að upplifa ýmis heilsufarsvandamál eftir nokkur ár á vegan mataræði og ég hef séð mikið um það í mínum viðtalstímum við viðskiptavini, meðal annars candida, SIBO, bakflæði, orkuleysi og hormónaójafnvægi.

Ég fer í bókinni yfir það sem ég hef lært um vegan mataræði eftir öll þessi ár og þá aðallega út frá heilsufarslegu sjónarhorni en ég fer einnig yfir siðferðis- og umhverfissjónarmið. Vegan mataræði er mjög heitt umræðuefni þessa dagana og ég veit að rafbókin á eftir að vekja umræður.“

Hún bætir þó aðspurð við að bókin sé svo nýútkomin að ekki sé enn farið að reyna almennilega á þetta. Hún hafi hins vegar í raun búist við því að hún fengi strax yfir sig harða gagnrýni en enn sem komið er bóli ekkert á slíku.

„Margir af mínum fylgjendum á Instagram hafa þó sent mér skilaboð og eru mjög ánægðir með þessi skrif, en ég bjóst við að fá hörð mótrök vegna þess að það eru mjög fáir sem þora að tjá sig um þessi málefni.“

Óvæntur viðsnúningur

Anna Lind selur rafbókina á heimasíðu sinni, holisticheilsuvorur.is, og segir henni alls ekki ætlað að sannfæra einn eða neinn um að vegan mataræði sé slæmt. Heldur frekar að benda á að fólk hafi mismunandi þarfir og að erfðir geti ráðið miklu um hvernig efnaskipti þess eru og í því sambandi setji hún spurningarmerki við hversu vel vegan henti Íslendingum.

„En við erum ekki öll eins og ef þú vilt fylgja vegan mataræði og líður vel af því þá er það frábært. Haltu þá bara áfram að hlusta á líkama þinn. Ég hef nánast snúið mataræði mínu algjörlega við og einblíni mikið á hreint kjöt og innmat, ásamt lágkolvetna mataræði en það tók mig langan tíma að snúa til baka.

Ég hélt að ég myndi aldrei byrja að borða dýraafurðir aftur,“ segir Anna Lind og bætir við að hún hafi tekið vegan lífsstílinn mjög alvarlega og haldið stórum hópi Insta­gram-fylgjenda vel upplýstum með matarbloggi og uppskriftum á íslensku og ensku.

„Það var mjög erfitt að brjóta þessa sterku ímynd en heilsa mín versnaði hratt og þegar ég var í námi í „functional medicine“ tókst mér loksins að greina skilaboðin sem líkami minn var að senda mér og áttaði mig á hverju hann þyrfti á að halda. Fyrsti kaflinn í bókinni fjallar um mitt vegan ferðalag en í síðari köflunum skrifa ég um heilsusamlegt mataræði og deili miklu af fróðlegum upplýsingum sem ég hef lært í gegnum mitt nám og námskeið í heilsugeiranum.

Heimsmynd hrynur

Fyrstu árin leið mér mjög vel á vegan mataræði, en ég sniðgekk ekki einungis dýraafurðir heldur einnig alla óholla fæðu,“ segir Anna Lind og nefnir sykur, glúten og aðrar unnar matvörur.

„En það getur tekið nokkur ár fyrir líkamann að þróa með sér næringarskort á vegan mataræði og þess vegna líður mörgum vel fyrstu mánuðina. Jafnvel fyrstu árin,“ segir Anna Lind og talar um að hún hafi verið í algerri afneitun þegar matar­æðið fór að taka sinn toll

„Heilsan byrjaði í rauninni að versna hægt og rólega en það hófst með blóðsykurssveiflum. Ég hætti með tímanum að þola ávexti og einn banani kom mér í blóðsykursfall og ég varð algerlega orkulaus með höfuð- og magaverki. En ég gaf þessu séns í nokkur ár í viðbót því ég hélt að vegan mataræði væri það besta fyrir mig og ég gafst ekki upp.“

Anna Lind segist örugglega hafa að minnsta kosti þráast við í eitt og hálft ár. „Ég var líka jógakennari og þessu er víða haldið á lofti í þeim fræðum þar sem jógakennslan byggist á ayurvedískum fræðum sem leggja áherslu á grænmetisfæði, en þessi fræði eiga uppruna sinn að rekja til Indverja, sem eru með allt öðruvísi líkamsstarfsemi en við Íslendingar.

Anna segist trúa á heildrænt mataræði.
Mynd/Aðsend

Allt í steik

Anna Lind segir vendipunktinn hafa verið vinnustofu um heildræna næringar- og lífsstílsþjálfun í London. „Kennarinn sagði hópnum að hann væri búinn að vinna með fullt af konum sem héldu að þær væru ófrjóar. Þær voru sem sagt allar grænmetisætur og um leið og þær byrjuðu að borða kjöt aftur þá gátu þær aftur eignast börn. Þetta setti svolítið punktinn yfir i-ið fyrir mig vegna þess að hann var að tala um að vegan mataræði gæti haft skaðleg áhrif á hormónakerfið, til dæmis vegna þess að það er ekki að finna kólesteról í jurtaríkinu en kólesteról er lífsnauðsynlegt fyrir líkamann til þess að framleiða hormón.“

Anna Lind segist ekki hafa verið í neinum barneignarhugleiðingum á þessum tíma en vildi ekki taka neinn séns. „En mig langaði bara ekki að koma í veg fyrir það þegar tækifærið kæmi, þótt ég vilji heldur ekkert alhæfa í þessum efnum.

Þetta sama kvöld fór ég, í fyrsta skipti í sex ár, á lífrænt fóðrað steikhús í London og hef ekki snúið aftur síðan,“ segir Anna Lind og bætir við að síðan þá hafi enn sterkari stoðum verið rennt undir breytta hugmyndafræði hennar.

Vanmetinn innmatur

Anna Lind segir dramatísk sinnaskiptin þó ekki hafa orðið til þess að hún hrekist öfganna á milli. „Vegna þess að mitt fyrirtæki, Holistic ehf., vinnur út frá heildrænu sjónarmiði þannig að við erum að reyna að horfa á heildarmyndina og einblínum á fjölbreytta fæðu, ríka af kjöti, innmat, jurtum, grænmeti og ávöxtum sem hafa lágan sykurstuðul.

Ég trúi á heildrænt mataræði og er í raun og veru bara að nota allt sem við finnum í náttúrunni og hlusta svolítið á efnaskipti okkar og erfðir. Þannig trúi ég því að grænmeti sé mikilvægt en það er kjöt líka. En ég er ekkert rosalega hlynnt mjólkurvörum, bara út frá því hvernig þær eru unnar í dag.

Ég trúi mikið á innmatinn, sem við vitum að er í rauninni bara fjölvítamín náttúrunnar,“ heldur hún áfram og bendir á að Íslendingar hafi fyrr á öldum sett allt sitt traust á kjöt og feitmeti.

„Í rauninni fengu hundarnir bara afganginn, sem var vöðvakjötið, en innmaturinn var mikilvægastur enda vissu allir hvað hann var næringarríkur. Nú til dags snertir enginn á þessari fæðu sem er sú ódýrasta í búðinni; lifur, hjörtu, nýru og þess háttar. En eitt er víst, samkvæmt fornleifarannsóknum, að mannkynið og forfeður okkar hafa borðað kjöt í að minnsta kosti 2,5 milljónir ára.“

Einkennin sem Anna Lind varar við:

● blóðsykurssveiflur

● ör hjartsláttur

● orkuleysi

● meltingatruflanir (magaverkir, uppþemba og bakflæði)

● H. Pylori bakteríusýking, Candida ofvöxtur, IBS, SIBO

● þynnra hár

● máttleysi

● tannskemmdir

● dofi í höndum og fótum

● hormónatruflanir