SVEF var upphaflega stofnað árið 2005 þegar vefirnir voru að ryðja sér til rúms. Þá þurfti að búa til regnhlífarsamtök til að halda utan um vegferð vefja og fagsins sem snýr að því. „Með tímanum hefur félagið þróast og breyst. Í upphafi voru þetta eingöngu forritarar og hönnuðir en í dag er komin inn mun fjölbreyttari flóra fólks í félagið.

Við höldum um fimm til sex stærri og minni viðburði á ári hverju er tengjast vefmálum, aðgengismálum, vefhönnun, bak- og framendaforritunum og mörgu fleiru. Stærsti viðburðurinn, Iceweb-ráðstefnan, er haldin í upphafi hvers árs og höfum við fengið fjölda innlendra og erlendra fyrirlesara til þess að fjalla um málefni tengd vefmálum. SVEF sér einnig um framkvæmd Vefverðlaunanna sem eru einmitt veitt á þessum viðburði,“ segir Arnar.

Vegleg ráðstefna 2021

„Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu af völdum COVID-19 þurfti að blása af Iceweb-ráðstefnuna í ár og verðlaunin voru haldin rafrænt á netinu. Þetta var auðvitað skellur þar sem við vorum búin að tjalda öllu til en þurftum að hætta við allt. Þá höfðum við örfáa daga til þess að undirbúa verðlaunaafhendinguna á netinu.

Stefnan er sett á að halda ráðstefnuna og vefverðlaunin fyrir árið 2020 í lok febrúar á næsta ári. Okkur langar auðvitað að halda stóran og veglegan viðburð þar sem allir geta hist, en við höfum vonandi aðeins lengri aðdraganda til þess að skipuleggja okkur ef kemur svo í ljós að viðburðurinn verður haldinn rafrænt. Það er um að gera fyrir áhugasama að fylgjast vel með á Facebook-síðunni okkar og á svef.is.“

Ásamt því að gegna formannsstöðu hjá SVEF er Arnar einnig annar stofnenda Digido, sem vinnur að því að auka árangur fyrirtækja í markaðssetningu með því að gera vefi sýnilegri, bjóða upp á greiningar á vefnotendum og markaðssetja vörur og þjónustu til notenda.

„Sjálfur kem ég úr heimi markaðsmála og kem því úr töluvert annarri átt en flestir í vefbransanum. En í dag er vefurinn orðin hálfgerð móðurstöð fyrirtækjanna og gegnir mikilvægu hlutverki sem snertiflötur allra deilda innan fyrirtækja. Gjáin á milli vef- og markaðsmála fer þannig sífellt minnkandi hjá fyrirtækjum og það er ljóst að vefmál eru orðin að markaðsmálum og markaðsmál eru orðin vefmál.“

Aldrei jafnmikilvægt

Að sögn Arnars hefur aldrei verið jafnmikilvægt og einmitt nú fyrir fyrirtæki og stofnanir að vera með góðan vef, hvort sem tilgangurinn er að selja þar þjónustu, veita upplýsingar eða í markaðslegum tilgangi. „Það er líka óhætt að segja að flest þeirra fyrirtækja sem starfa í hönnun, framleiðslu, endurgerð og viðhaldi vefja hafi fundið fyrir nokkurri aukningu í eftirspurn bæði frá innlendum og erlendum fyrirtækjum.

Þá má meðal annars nefna að stór fyrirtæki eins og N1, Krónan, Pósturinn og fleiri, sem áður höfðu kannski ekki lagt mikla áherslu á sýnileika á vefnum, eru farin að leggja mikla áherslu á það í dag, þá sérstaklega í kjölfar faraldursins. Markmiðið er að finna nýjar tæknilausnir til þess að halda áfram að þjónusta viðskiptavini.“