Elín er búsett norður í Þingeyjarsveit og hóf störf sem skólaliði og síðan í eldhúsi Þingeyjarskóla fyrir hartnær átta árum. Nú býður hún nemendum skólans upp á spennandi möguleika í handverki, sem er ólíklegt að sé í boði í mörgum grunnskólum í dag. „Það kom upp í starfsmannaspjalli að ég hefði verið með þemaviku í skólanum fyrir 15-20 árum og leiðbeint yngri deildunum í vefnaði. Hálfur skólinn fékk að spreyta sig og úr varð langur refill í ýmsum litum úr alls konar hráefni sem hékk lengi uppi á vegg í skólanum. Skaut skólastjórinn því að hvort ég vildi ekki kenna vefnað í skólanum,“ segir Elín og bendir á að í Þingeyjarskóla sé vel staðið að verk- og listgreinakennslu. Fá nemendur fjölbreytta menntun í ýmsu handverki og taka að auki þátt í stórri uppsetningu á ári hverju með tónlistar- og leiklistarflutningi.

Gunnar er einn nemandi Elínar og sést hér vefa dýrindis mottu úr gömlum og slitnum rúmfötum.

Kennir vefnað og nýtingu

Elín hóf á síðasta ári að leiðbeina nemendum á mið- og unglingastigi um vefnað einn dag í viku. „Það þarf einfaldlega vissa hæð til að geta unnið við vefstólinn, en ég stefni á að bæta við spuna og tóvinnu í vor fyrir nemendur á öllum aldri og leikskólastigið líka. Þá geta börnin spunnið ull, til dæmis af sínum eigin kindum eða jafnvel af hundinum á heimilinu. Sjálf hef ég spunnið úr einum sex til átta dýrategundum.“

Elín var strax ákveðin í því að vefnaðurinn byggðist eingöngu á hráefni sem til félli, ekkert yrði keypt nýtt nema uppistöðugarnið. „Við leitum, klippum og rífum efni sem kemur mestmegnis úr tiltekt á heimilum. Þegar kemur að vefnaði þá er allt mögulegt. Það er hægt að klippa niður eða rífa hvaða textíl sem er og vefa úr honum. Tvær hafa til dæmis ofið úr gallabuxum. Það kemur allur textíll og ýmislegt fleira líka til greina.“

Jón Andri gengur hér frá endum í dýrindis mottu sem hann hefur ofið.

Til eru tveir fullbúnir vefstólar sem nemendur keppast um að komast í og fá að vefa. „Því miður er ekki hægt að skipta um vefnað í stólnum og því geta bara tveir nemendur ofið í einu. Fyrsta verkefni allra er einskeftumotta sem er einfaldasti vefnaðurinn og þegar hafa tíu nemendur fengið að spreyta sig í vefstólunum. Ég er mjög sátt við samskiptin við nemendur og finnst frábært hvað þau hafa verið áhugasöm og meðvituð um umhverfismál og nýtingu. Við vinnum með nærumhverfið, endurnýtingu og hugmyndaflug.“

Ef þessu tilraunaverkefni verður haldið áfram næsta vetur vonast Elín til þess að geta boðið nemendum upp á framhaldskennslu í flóknari vefnaði með möguleika á mynsturgerð. „Ég veit ekki til þess að boðið sé upp á vefnaðarkennslu í vefstólum í öðrum grunnskólum á landinu en það væri mjög gaman að frétta hvort svo er.“

Hér má sjá Hildi, einn nemanda Elínar, í fínvinnunni.

Rúllubaggaplastið svínvirkar

Elín er sjálf stolt og fær handverkskona og hefur marga fjöruna sopið í þeim geira. „Ég er afskaplega nýtin og nokkuð gamaldags ef svo má að orði komast. Mér er ekkert gefið um að kaupa nýjar flíkur og henda án þess að gjörnýta þær. Ef ég hendi einhverju þá geta allir treyst því að það er alveg ónýtt. Það er nefnilega hægt að búa til ýmislegt úr slitnum textíl og það gildir um allt frá rúllubaggaplasti og upp í slitinn nærbol.

Þrjár fremstu motturnar eru efti rnemendur í Þingeyjarskóla. Efst má sjá glitta í rúlluplastvefnað Elínar.

Rúllubaggaplastið er fyrir augunum á öllum í sveitum síðustu áratugi. Nú kemur þetta í fjölbreyttum litum, hvítu og svörtu, grænu, bleiku og bláu. Litaða plastið er erfiðara í endurvinnslu og þá er um að gera að endurnýta það, fyrst þetta er komið í notkun á annað borð. Ég hugsaði með mér að þetta hráefni væri vel nýtilegt í vefnaðinn og prófaði. Þá tók ég þvælur utan af rúlluböggum og setti í þvottavél. Það er náttúrulega smá lím í þessu sem þarf að þvo úr til að gera efnið meðhöndlanlegra. Þetta svínvirkar alveg. Motturnar henta vel þar sem er mikil umgengni og eru stamar á gólfi. Undanfarin ár hef ég ekki haft tíma til að gera mikið af þessu en vonast til að geta sinnt handverkinu meira í framtíðinni.“