Höfundurinn Bret Easton Ellis er einna þekktastur fyrir bókina American Psycho, sem kom út árið 1991. Á henni var svo byggð kvikmynd sem kom út tæpum áratug síðar og skartaði Christian Bale í hlutverki Patrick Bateman. Bret hefur haldið úti mjög vinsælu hlaðvarpi síðan 2013, sem heitir einfaldlega The Bret Easton Ellis Podcast, og fjallar í því helst um kvikmyndir og poppkúltúr. Hann þykir skemmtilegur sögumaður og með umdeildar skoðanir, sem hann hikar ekki við að deila með hlustendum. Í hlaðvarpið hafa mætt stjörnur á borð við Rose McGowan, Quentin Tarantino og Kanye West. Grínistinn York Underwood, sem búsettur er á Íslandi, hefur nú verið fenginn til þess halda úti bókaklúbbi samhliða hlaðvarpinu, The Bret Easton Ellis Podcast Book Club, í samstarfi við höfundinn. Stefnt er á að lesa allar sjö skáldsögur höfundarins, ásamt bókinni White, en í henni skoðar hann stöðu pólitískrar rétthugsunar í samfélaginu í dag. York stjórnar streyminu fyrir bókaklúbbinn, en það er framleitt af kærasta Brets, Todd Michael Schultz.

Nýtum tímann til lesturs

„COVID-19 hefur valdið því að við erum öll svo mikið á netinu. Ég hef verið fastur heima í marga mánuði. Mig langaði að skapa eitthvað fyrir aðdáendur hlaðvarpsins, eitthvað dálítið öðruvísi. Eitthvað jákvætt. Ættu ekki allir að nýta þennan tíma til að lesa meira?“ spyr Todd.

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að fá York til að stjórna vefseríunni?

„York hefur verið dyggur hlustandi og aðdáandi hlaðvarps Brets í mörg ár. Fyrir nokkrum mánuðum gerði hann athugasemd við einn þáttinn og stakk upp á að við ættum að fara yfir verk Brets í þáttunum, lesa allar bækurnar. Mér fannst það góð hugmynd. Ég hef ekki einu sinni lesið allar bækurnar eftir hann og ég bý með honum. Ég og Bret höfum séð uppistandið hans York og vissum að hann væri ekki einungis fyndinn, heldur líka klár og skemmtilegur. Mér fannst þetta smellpassa og sendi honum því tölvupóst,“ segir Todd.

Poppstjarna framtíðarinnar

Todd hefur verið einn af framleiðendum hlaðvarps Brets frá byrjun. Hann starfar líka sem tónlistarmaður.

„Ég er meira í tónlistinni. Ég syng, poppstjarna framtíðarinnar,“ segir hann og hlær. „Ég bý í Los Angeles. Mig langaði að fara í eitthvað verkefni ég sem ég gæti sinnt af mikill ástríðu. Nýja vefserían með York er kannski ekki stór í sniðum þegar það kemur að framleiðslu en ég trúi því að við munum gera flotta hluti með honum. Bret sjálfur er svo yfirframleiðandinn, það hjálpar auðvitað að fá hans nafn á þetta til að fá fólk til að hlusta. En þetta er fyrst og fremst mitt verkefni,“ segir Todd.

Skemmtileg heimavinna

York rekur uppistandsklúbbinn The Secret Cellar við Lækjargötu. Hann hefur búið á Íslandi síðan 2015. Hann segir það hafa verið smá súrrealískt að fá tölvupóstinn frá Todd á sínum tíma. Hann hefur sjálfur ekki lesið allar bækur Easton Ellis.

„Ég hef lesið fimm bækur af átta. Ég er núna að lesa þær aftur, með blað og penna að vopni til að skrá niður allt sem mér finnst áhugavert. Ef ég gæti sagt sjálfum mér þegar ég var 12 ára að ég væri svona spenntur yfir því að vinna heimavinnuna mína 34 ára gamall, þá hefði ég orðið hissa. Þegar ég ræddi þetta við stjúpson minn, sem er einmitt 12 ára, fannst honum þetta lítið spennandi. Svo spurði ég hann hvað TikTok er og þá fékk hann strax aftur áhugann,“ segir York.

Streyma um miðja nótt

En hvernig gengur bókaklúbbur í beinni á netinu fyrir sig?

„Ég sem sagt stjórna umræðunum og við fáum til okkar aðdáendur Brets. Hver sem er getur tekið þátt í umræðunum. Planið er að fara yfir bækurnar næstu sex mánuði. Við erum búin að fara yfir bókina Less Than Zero. Næst ræðum við bókina Rules of Attraction. Streymið fer fram klukkan 05.00 á íslenskum tíma út af tímamismuninum, þannig það er sýnt klukkan 21.00 á staðartíma í Los Angeles. Streymin verða svo klippt til og hægt verður að horfa á þau síðar. Okkur langar mikið að fá íslenska gesti til að taka þátt. Ég fékk skáldið Halldór Armand Ásgeirsson, leikhöfundinn Björn Leó Brynjarsson og grínistann Metta Kousholt til að ræða Less Than Zero,“ segir York

Næsta streymi fer fram 3. febrúar. Hægt verður að nálgast það á www.breteastonellis.com.