„Jæja ég vonast til að fara komast heim héðan frá Strassborg. Ég sem sagt varð veðurteppt og þetta er í þriðja sinn á fjórum vikum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra en hún ávarpaði þing Evrópuráðsins í Strassborg í gær þar sem hún ítrekaði mikilvægi áframhaldandi stuðnings og samstöðu með úkraínsku þjóðinni.

Katrín greinir frá því á Instagram-síðu sinni að hún sé nú veðurteppt í Strassborg og að þetta sé í þriðja sinn á fjórum vikum sem hún er veðurteppt erlendis.

„Þannig það sem ég er að hugsa um er núna að fara birta alltaf það þegar ég er í flugi þannig að þið hin getið farið á öðrum dögum því það er alveg ljóst að ef ég er í fluginu þá mun það falla niður.

Nú bara krossa putta og komast heim. Þó það sé ágætt stundum að vera annars staðar en heima þá er best að vera heima,“ segir Katrín jafnframt á Instagram.