Daði og gagnamagnið eru líklegustu sigurvegarar Eurovision söngvakeppninnar árið 2021, ef marka má veðbanka. Þetta má sjá á vefsíðunni Eurovisionworld þar sem Ísland trónir á toppnum, þrátt fyrir að hafa enn ekki teflt fram lagi.
Eins og Fréttablaðið hefur greint frá vinnur Daði okkar allra nú hörðum höndum að því að semja Eurovision framlag Íslands árið 2021. Daða var spáð sigri af ýmsum í fyrra í keppni sem, líkt og alþjóð veit, var blásin af vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Daði óskaði í byrjun ársins eftir kröftum almennings og bað fólk um að senda sér upptökur. Fullyrti Daði að allar upptökur yrðu notaðar og sendu 1153 manns honum sínar raddir.
Þrátt fyrir að veðbankar spái Daða sigri er stutt liðið á árið og hafa Evrópuþjóðir farið ólíkar leiðir að því að velja sitt framlag í ár. Sumar þjóðir tefla fram sama listamanni og í fyrra líkt og Íslendingar en aðrar, líkt og Noregur og Litháen munu ríða á vaðið 2021 og hefja undankeppnir sínar um helgina.
Mun margt eflaust breytast í spám veðbanka þegar öll lög hafa verið valin. Í Noregi munu fjögur lög keppa annað kvöld um að komast á úrslitakvöldið í Melodi Grand Prix, Söngvakeppni þeirra Norðmanna. Mesta athygli þar hingað til hefur bandið KEiiNO vakið en bandið lenti í öðru sæti fyrir hönd Noregs árið 2019. Nú teflir bandið fram laginu MONUMENT sem má hlusta á hér að neðan.