Daði og gagna­magnið eru lík­legustu sigur­vegarar Euro­vision söngva­keppninnar árið 2021, ef marka má veð­banka. Þetta má sjá á vef­síðunni Euro­visionworld þar sem Ís­land trónir á toppnum, þrátt fyrir að hafa enn ekki teflt fram lagi.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá vinnur Daði okkar allra nú hörðum höndum að því að semja Euro­vision fram­lag Ís­lands árið 2021. Daða var spáð sigri af ýmsum í fyrra í keppni sem, líkt og al­þjóð veit, var blásin af vegna heims­far­aldurs CO­VID-19.

Fréttablaðið/Skjáskot

Daði óskaði í byrjun ársins eftir kröftum al­mennings og bað fólk um að senda sér upp­tökur. Full­yrti Daði að allar upp­tökur yrðu notaðar og sendu 1153 manns honum sínar raddir.

Þrátt fyrir að veð­bankar spái Daða sigri er stutt liðið á árið og hafa Evrópu­þjóðir farið ó­líkar leiðir að því að velja sitt fram­lag í ár. Sumar þjóðir tefla fram sama lista­manni og í fyrra líkt og Ís­lendingar en aðrar, líkt og Noregur og Litháen munu ríða á vaðið 2021 og hefja undan­keppnir sínar um helgina.

Mun margt eflaust breytast í spám veðbanka þegar öll lög hafa verið valin. Í Noregi munu fjögur lög keppa annað kvöld um að komast á úr­slita­kvöldið í Melodi Grand Prix, Söngva­keppni þeirra Norð­manna. Mesta at­hygli þar hingað til hefur bandið KEi­iNO vakið en bandið lenti í öðru sæti fyrir hönd Noregs árið 2019. Nú teflir bandið fram laginu MONU­MENT sem má hlusta á hér að neðan.