Oft eru vetrarskór stórir og klunnalegir og ekki endilega mikið fyrir augað. En það er þó hægt að finna skó sem geta gengið upp bæði við fínni tilefni að vetri og henta vel til göngutúra í snjónum. Slíkir skór henta vel þegar fólk vill kannski fara eitthvað fínt út að borða og vill geta gengið að veitingastaðnum án þess að frjósa á tánum eða blotna í gegn, en vill þó ekki líta út eins og ferðinni sé heitið í fjallgöngu á Everest.

Ef marka má tískusýningarpallana undanfarin misseri virðast stígvél vera í tísku. Stígvél eru mjög hentugur skófatnaður við hin ýmsu tilefni. Flestir tengja þau eflaust við útiveru í rigningu, garðvinnu eða útilegur. En þegar vetrartískan 2019-2020 var kynnt bæði í London og Mílanó mátti sjá fyrirsætur í stígvélum við fínni föt. Stígvél eru ef til vill frekar köld á köldustu vetrardögunum hér á Íslandi en kosturinn við þau eru að auðvelt er að vera í þeim í ullarsokkum og þá eru komnir hinir fínustu vetrarskór.

Klassísk svört polla­stígvél sáust á tískupöllunum með vetrartískunni í Kína. NORDIC­PHOTOS/GETTY
Stígvél geta tekið á sig ýmsar myndir. Þessi háhæluðu gúmmístígvél minna einna helst á gula leðurskó frá 8. áratug síðustu aldar.
Fyrirsæta í Mílanó skartar stígvélum við sparilegan svartan kjól.
Þessi stígvél minna svolítið á frystihús. Hér er fyrirsæta í hversdagslegum kjól við hvít gúmmístígvél.