Á Jökuldalsheiði í Fljótsdalshéraði eru tugir gamalla heiðarbýla sem voru í byggð á 19. og 20. öld, en hafa nú lagst í eyði. Þar bjó að mestu fólk frá Fljótsdalshéraði sjálfu, en einnig frá Austfjörðum og Norðurlandi, og þegar mest var bjuggu 120 manns á svæðinu. Árið 1992 endurbyggði Jökuldalshreppur heiðarbýlið Sænautasel í sinni upprunalegu mynd, en þar var lengst af öllu búið, og Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, sveitarfélagið Fljótsdalshérað og Kaupvangur, menningar- og fræðasetur Vopnfirðinga, gáfu svo út upplýsingabækling um býlin til að varðveita sögu svæðisins og sveitarfélagið kom upp ferðaþjónustu á svæðinu. Nú er einfalt að fylgja gönguleiðum til að skoða heiðarbýlin og á sumrin er líka boðið upp á gönguferðir um svæðið með leiðsögn.

Góð skilyrði fyrir búskap

„Föst búseta á Jökuldalsheiði árið um kring stóð yfir í rúma öld, frá 1841–1946. Býlin í Jökuldalsheiði urðu alls 16 og voru reist á árunum 1841 til 1862,“ segir Þorvaldur P. Hjarðar, formaður Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. „Auk þessara býla nær verkefnið líka til tíu annarra býla í nágrenninu sem eru á Vopnafjarðarheiði og í Selárdal.

Heiðarbýlið Sænautasel var lengst allra býla í byggð. Árið 1992 var bærinn svo endurbyggður í sinni upprunalegu mynd með leiðsögn frá Eyþóri Guðmundssyni og bræðrum hans. Eyþór er sonur síðustu ábúenda á Sænautaseli og sést hér í dyrunum. MYND/AÐSEND

Það voru að mörgu leyti góð skilyrði fyrir búskap þarna á heiðinni, en það var yfirleitt snjóþungt, enda voru flest býlin í yfir 500 metra hæð yfir sjávarmáli,“ segir Þorvaldur. „Það var ágæt silungsveiði í flestum vötnum á svæðinu, mikil rjúpnaveiði á veturna og eitthvað af gæsum, öndum og álftum á sumrin. Þarna gengu hreindýr líka frjáls og þau voru nokkur búbót.

Við Öskjugosið 1875 lögðust eiginlega allir bæirnir í eyði vegna öskufalls, sem var sérlega mikið á hálendinu, en fólk hóf reyndar búskap aftur í sumum þeirra nokkrum árum síðar. En margir fluttu burt, fyrst í sveitirnar um kring og svo fór fjöldi þeirra til Kanada, svo margir Vestur-Íslendingar eru afkomendur fólks af Jökuldalsheiði,“ segir Þorvaldur. „Þau heiðarbýli sem lifðu lengst voru þau sem voru við vötn með veiði, en þau voru Sænautasel, Veturhús og Heiðarsel, en það síðastnefnda fór síðast allra í eyði, þegar ábúendur fluttu á Seyðisfjörð árið 1946. Það var myndarbýli, en bóndinn, Guðjón Gíslason, var búfræðingur, svo þar var að finna túnsléttun, áveitu og fleira sem ekki var almennt í heiðinni.“

Margir biðu einhvers betra

„Margir þeirra sem bjuggu á heiðarbýlunum voru að bíða eftir betri jörð. Björn Jóhannsson, sem átti síðar eftir að verða skólastjóri á Vopnafirði, og kona hans, Anna Magnúsdóttir, ljósmóðir frá Hjarðarhaga, bjuggu til dæmis á Veturhúsum á árunum 1917 til 1921, en þegar Björn fékk fasta stöðu á Vopnafirði fluttu þau burt. Sigurður Benediktsson, afabróðir minn, var ráðsmaður hjá prestinum í Hofteigi, en þegar prestur bregður búi þurfti hann að fara af jörðinni og flutti þá á heiðarbýlið Ármótasel í tvö ár á meðan hann beið eftir að komast á betri jörð í Jökuldal,“ útskýrir Þorvaldur. „Þetta er dæmigert, það var mikið rennerí á þessum stöðum. Svo þegar betur borguð vinna fór að bjóðast var lítið sem hélt fólki á heiðunum og ferðirnar til Ameríku hjuggu líka stór skörð í fólksfjöldann. Þá fara öll býlin í eyði, sem og efri hluti Jökuldals.

Hér er ljósmynd sem sýnir síðustu heiðarbændurna í kaupstaðarferð á Seyðisfirði um 1940. MYND/AÐSEND

Það hefur verið skrifað talsvert um heiðarbýlin. Gunnar Gunnarsson skrifaði um þau í bókunum Heiðaharmur og Sálumessa og Halldór Stefánsson skrifaði um þau í Austurland, bók II, sem heitir „Jökuldalsheiðin og byggðin þar“,“ segir Þorvaldur. „Halldór Laxness fékk líka innblástur fyrir bókina Sjálfstætt fólk í heimsókn á heiðarbýlin, en hann kom við á Veturhúsum og gisti í Sænautaseli. Talið er að Veturhús hafi orðið fyrirmyndin að Sumarhúsum og Bjartur bóndi hafi verið samsuða úr ýmsum persónum af svæðinu.“

Ferðaþjónusta og gönguleikur

„Heiðarbýlið Sænautasel var lengst allra býla í byggð, en þar var búið í 95 ár milli 1843–1943, en ekki í fimm ár eftir Öskjugosið 1875. Árið 1992 var bærinn svo endurbyggður í upprunalegri mynd með leiðsögn frá Eyþóri Guðmundssyni og bræðrum hans, en þeir eru synir síðustu ábúenda á Sænautaseli,“ segir Þorvaldur. „Hugmyndin á bak við þetta verkefni kemur frá Jökuldælingum sjálfum, en hugsunin var að varðveita eitt heiðarbýli í upprunalegri mynd á meðan enn var til fólk sem bjó þarna og mundi hvernig þetta leit út, svo þetta gleymdist ekki.

Mynd frá afhendingu bæklingsins um heiðarbýlin og gönguleiðirnar þangað. Frá vinstri, Þorvaldur P. Hjarðar, Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, og Ingólfur Sveinsson, formaður Vina Selársdals. MYND/AÐSEND

Um leið voru settir upp staukar hjá 22 býlum þar sem finna má upplýsingar um býlin, ábúendur þeirra og sögur tengdar þeim, ásamt gestabók og stimpli. Árið 2017 var svo fjórum býlum á Almenningi í Selárdal bætt við,“ segir Þorvaldur. „Það er gönguleikur í gangi tengdur verkefninu sem felst í því að safna 10 stimplum í sérstakt kort og skila því til Ferðafélags Fljótsdalshéraðs eða á Egilsstaðastofu við Tjaldstæðið á Egilsstöðum. Í september á hverju ári er svo dregið úr kortunum um alls kyns veglega vinninga. Kortin kosta 500 krónur og eru til sölu í Sænautaseli, á Upplýsingamiðstöðvum á Egilsstöðum og Vopnafirði, hjá Egilsstaðastofu og á skrifstofu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.

Þessi mynd er frá Heiðarseli, en þar var síðasta býlið í heiðinni til að fara í eyði. Þar var myndarbýli, en bóndinn, Guðjón Gíslason, var búfræðingur, svo þar var að finna túnsléttun, áveitu og fleira sem ekki var almennt í heiðinni. MYND/AÐSEND

Á sumrin er starfrækt menningartengd ferðaþjónusta á Sænautaseli og fólk getur séð hvernig fólk bjó þar í byrjun síðustu aldar,“ segir Þorvaldur. „Þar er tjaldsvæði og safn um gamla bæinn og þar er bæði hægt að fá silung úr Sænautavatni og kakó og heimagerðar lummur með rjóma og rabarbarasultu.“

Leiðsögn á sumrin

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs stendur fyrir göngum á heiðarbýlin á sumrin undir nafninu „Heiðarbýlin í göngufæri“, en þau eru á nokkuð stóru svæði, svo þau eru ekki öll heimsótt í einu.

„Sú fyrsta verður núna í ágúst og þá verður farið þarna um og gestir geta heyrt um þá sem bjuggu á bæjunum, kosti þeirra og af hverju fólk ákvað að búa þarna,“ segir Þorvaldur. „Klassíska gönguferðin er á tíu heiðarbýli og svo er endað í kvöldmat á Sænautaseli. Þetta er mjög þægileg ganga og frekar fjölskylduvæn ferð. Svo er líka hægt að fara í lengri göngur og við bjóðum líka upp á svokallaða vaðferð, en þá þarf að vaða ár, en þær eru ekki vatnsmiklar. Við viljum bjóða fleiri en einn valkost svo það sé hægt að breyta til. Það er hægt að kynna sér leiðirnar í bæklingnum um göngurnar, sem er á vef ferðafélagsins. Það ættu líka allir að geta ratað þetta án leiðsagnar. Það eru góðar merkingar við gönguleiðirnar og þær eru yfirleitt ekki mjög langar.

Þessi mynd er tekin af bæjarhlaðinu á Arnarvatni, en það var fyrsti bærinn í heiðinni til að fá vatnsleiðslu. Í forgrunni sést minningarskjöldur um rithöfundinn Gunnar Gunnarsson, sem eitt sinn átti Arnarvatn. MYND/AÐSEND

Þeir sem hafa áhuga á að fara í göngu geta líka haft samband við Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og þá er hægt að panta leiðsögn fyrir þá gönguleið sem fólk vill fara. Oft sækist fólk til dæmis eftir því að koma á staði sem það á ættir að rekja til og við höfum þetta bara eftir hentisemi,“ segir Þorvaldur að lokum. ■


Nánari upplýsingar má finna á vef Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, www.ferdaf.is, þar á meðal bækling með ítarlegum upplýsingum um heiðarbýlin og göngurnar á þau.