Kvikmyndir

Klovn the Final

★★★1/2

Leikstjórn: Mikkel Nørgaard

Aðalhlutverk: Frank Hvam, Casper Christensen, Mia Lyhne

Rétt upp hönd sem hefur ekki heyrt um Klovn! Ókei, þá þarf ekki að fara mörgum orðum eða leggjast í djúpar greiningar á þessu danska groddagríni sem í eðli sínu er svo einfalt að annað hvort fílar fólk fíflaganginn í þeim Frank og Casper eða þolir þá ekki.

Eðlilega, þar sem Klovn heyrir undir þá tegund gríns sem er best skilgreint sem eitur í beinum meðvirkra vegna þess einfaldlega að það sem fyrir augu og eyru ber er svo óbærilega vandræðalegt að verkirnir í meðvirkninni verða að raunverulegum líkamlegum óþægindum.

Þetta eru svipuð einkenni og The Office og Curb Your Enthusiasm framkalla nema bara að þegar Frank og Casper eru upp á sitt besta er stingurinn í meðvirkninni eiginlega óbærilegur.

Klovn the Final rambar á þessum sársaukamörkum þannig að maður þraukar í gegnum þjáninguna ýmist gleiðbrosandi eða skellihlæjandi þannig að þessi þriðja og síðasta Klovn-mynd, ef marka má yfirlýsingar þeirra félaga og fullyrðingu Caspers í nýlegu viðtali við Fréttablaðið, er því eiginlega bara eins góð kveðjustund og við sem elskum að þjást í meðvirkni gátum óskað okkur.

Fyrsta myndin var frábærlega vel heppnuð og þar tókst þeim Casper og Frank að fleyta þáttunum að því er virtist áreynslulaust af skjánum á stóra tjaldið. Og ganga meira að segja aðeins lengra í leiðinni. Næsta mynd var mun síðri, einhvern veginn lausari í sér og meira eins og langur samhengislítill sjónvarpsþáttur. Hún er þó miklu betri en af er látið núna þegar keppst er við að tala hana niður í samanburði við hinar tvær í þríleiknum.

Breytir því ekki að sú þriðja er nánast á pari við þá fyrstu og stekkur yfir alla þvæluna í númer tvö og myndar nokkuð sterka, drepfyndna og óþægilega heild. Frank og Casper eru sjálfum sér líkir og klikka ekki og komast enn og aftur upp með alls konar rökleysu í þróun persónanna milli mynda og þáttaraða.

Mia Lyhne er alltaf jafn yndisleg og óbilandi sem klettur skynseminnar í þeim drullupolli sjálfhverfu og sjúkleika sem tilvera Franks og Caspers er.

Fleiri fastagestir úr þáttum og myndum skila sínu eins og við var að búast og Christian Østergaard Sørensen fær meira pláss en venjulega og tekur góðan sprett sem Lille Christian. Sem betur fer neitar Klovn sér ekki um smá dvergagrín þótt myndin beri um margt með sér að þeir Frank og Casper standa aldrei þessu vant aðeins á bremsunni í ósmekklegheitunum.

Niðurstaða: Drepfyndin, óþægileg og ógeðslega ljúf kveðjustund með þeim Casper og Frank. Það er að segja fyrir okkur sem munum sakna þeirra. Hin hafa vonandi vit á því að halda sig víðsfjarri.