„Ég fékk þessa hugmynd þegar ég flutti heim til Íslands, þá safnaði ég saman erlendum vinkonum mínum og á alveg slatta af þeim á Íslandi og náði einhvern veginn að byrja bara einhvers konar rannsókn á því hvað er að vera útlendingur á Íslandi,“ segir Magnea.

Myndin er frumsýnd í Bíó Paradís klukkan hálf sex í dag. Þar fylgir Magnea eftir þeim Karolinu Von Mrozik Gliszczynska, Ayse Ebru Gurdemir, Mariu Victoriu Ann Campbell og Zinetu Pidzo Čogić.

Magnea segir þær mjög skemmtilegar og ólíkar týpur en þær eru frá fjórum mismunandi löndum. Magnea segist ekki eiga langt að sækja innblásturinn.

Hún hafi sjálf enda verið útlendingur í öðru landi, búið á Spáni og í Frakklandi og ferðast víða. „Og einhvern veginn fór ég að spá í þetta og kannski líka út af auknum rasisma og órétti sem erlendir upplifa á Íslandi.“

Magnea segist ekki vita til þess að nokkuð þessu líkt hafi verið gert í kvikmyndum áður hér á landi. „Þetta er umfjöllunarefni sem mætti fjalla meira um,“ útskýrir hún.

„Ég hef gert stuttmyndir um ósýnilegt fólk í samfélaginu, sem er öryrkjar eða útlendingar eða fatlaðir eða ýmislegir miðbæjarkarakt­erar,“ segir Magnea.

„Þannig að þetta er áframhaldandi áhugi á sósíalrealisma og fólki sem fær oft ekki mikla athygli en verður oft fyrir miklu órétti en er æðislegir karakterar og hefur rosalega mikið að segja.“

Aðspurð hvað hafi staðið upp úr eftir gerð myndarinnar segir Magnea á léttu nótunum að það hafi verið ótrúlega krefjandi en gefandi og lærdómsríkt ferli. „Og umræðan, að vera útlendingur, þetta á við alla og það er bara gaman að hún fái að fæðast og lifa,“ segir Magnea.

„Og að við getum tekið þessa umræðu um það hvað útlendingar geta gefið inn í samfélagið með komu sinni hingað, sama hvort það er flóttafólk eða innflytjendur, hvað þau geta auðgað menninguna og verið mikið krydd í tilveruna.“

Hún segist hafa lagt upp með street-myndatöku í myndinni og að leika sér með andstæður með tónlist Ólafar Arnalds. „Það er óhefðbundið að vera með fjórar aðalpersónur, svo þetta var krefjandi ferli en virkilega gefandi og skemmtilegt.“