Fleiri en eitt netöryggisfyrirtæki hefur sent út viðvörun vegna þess að ýmsum gerðum af svindli í tengslum við Black Friday hefur fjölgað hratt að undanförnu. Svindlararnir beina sjónum sínum að hinni hratt stækkandi netverslun og hafa fundið upp á nýjum ráðum til að fá fólk til að falla í gildrur sínar.

Vilja fá fólk til að hringja í sig

Samkvæmt skýrslu frá tölvupóstsöryggisfyrirtækinu Inky eru svindlarar næstum hættir að setja hættulega hlekki og viðhengi við tölvupóstana sína því öryggiskerfi eru orðin svo góð í að stoppa slíka pósta. Í staðinn eru þeir farnir að senda pósta þar sem þeir þykjast vera stórar netverslanir eða greiðsluforrit. Íslendingar kannast líklega margir við svipað svindl, en hér hafa svindlarar sent pósta sem er reynt að láta líta út fyrir að vera frá Póstinum.

Inky segir að þessir tölvupóstar líkist pöntunarstaðfestingu frá netverslun og séu skaðlausir þegar þeir eru opnaðir en þeir innihaldi símanúmer sem fólki er ráðlagt að hringja í ef það telur að því hafi verið send staðfestingin fyrir mistök. Svindlararnir vonast til þess að fólk sem fær póst um að það hafi keypt vörur sem það kannast ekkert við lítist illa á og gruni jafnvel að einhver hafi verið að kaupa vörur í þeirra nafni og flýti sér því að hafa samband. Ef fólk gerir það svarar svindlari sem reynir að fá það til að gefa upp greiðslukortaupplýsingar og aðrar viðkvæmar upplýsingar.

Svindlarar reyna ýmis ráð til að veiða fólk í gildrur sínar. Þeir falsa meðal annars tölvupósta, smáskilaboð og vefsíður til að reyna að gabba fólk.

Inky segist hafa séð gríðarlega aukningu á svona póstum á síðustu mánuðum og að fjöldinn hafi aukist eftir því sem Black Friday og Cyber Monday færast nær. Til að forðast að verða fyrir svona svindli mælir Inky með því að skoða netfangið og textann í póstinum vandlega, ef fólk fær tölvupóst af þessu tagi, til að reyna að átta sig á hvort hann sé raunverulegur. Það er líka sniðugt að fara á síðu netverslunarinnar í tölvunni og athuga hvort pantanirnar sjáist þar.

Mikið af fölsuðum síðum

Annað netöryggisfyrirtæki, Kaspersky, hefur varað við því að það sé mikið af fölsuðum síðum sem taka við greiðslum yfir netið og fjöldi þeirra hafi meira en tvöfaldast milli september og október á þessu ári. Oftast reyna þessar síður að líkja eftir vefjum vinsælla vefverslana eins og Amazon, eBay eða Alibaba. Kaspersky segir að Black Friday leiki lykilhlutverk í þessari skyndilegu aukningu á svona svindli og að það hafi orðið mikil aukning í fjöldapóstum sem innihalda orðin „Black Friday“ síðustu vikur.

Það er ýmislegt sem Kaspersky mælir með að fólki geri til að tryggja öryggi sitt þegar það verslar á netinu. Eitt gott ráð er að opna aldrei viðhengi eða hlekki í tölvupóstum frá bönkum, greiðsluforritum eða netverslunum, sérstaklega ef sendandinn leggur mikla áherslu á að það sé gert.

Svindlarar hafa sent skilaboð sem eru látin líta út fyrir að vera frá vinsælum netverslunum til að plata fólk til að senda þeim viðkvæmar upplýsingar.

Neytendur ættu líka alltaf að skoða vel slóðina og athuga hvort nöfn fyrirtækjanna séu örugglega skrifuð hárrétt, auk þess sem þeir ættu alltaf að skoða umsagnir um vefverslanir og tryggja að þær séu öruggar áður en viðkvæmar upplýsingar eru slegnar þar inn.

Svindl SMS eru vinsæl ný aðferð

Fjöldi sviksamlegra smáskilaboða hefur næstum tvöfaldast frá því í fyrra því að svindlarar leggja svo mikinn kraft í að reyna að svindla á þeim sem ætla að versla á Black Friday og Cyber Monday. Samkvæmt netöryggisfyrirtækinu Proofpoint eru meira en tvenn af hverjum þrennum smáskilaboðum sem eru send um allan heim á einhvern hátt tengd pöntunum eða vörumerkjum. Þar sem neytendur hafa vanist því að eiga samskipti við fyrirtæki í gegnum textaskilaboð hafa svindlarar verið að senda skilaboð þar sem þeir þykjast vera vinsælar verslanir eða póstburðarfyrirtæki og plata fólk til að senda þeim viðkvæmar upplýsingar eða smella á hlekki inn á síður sem eru hannaðar til að stela slíkum upplýsingum.

Fólk er almennt farið að læra að opna ekki viðhengi og hlekki í tölvupóstum frá ókunnugum en margir eru ekki jafn varir um sig þegar kemur að smáskilaboðum. Samkvæmt Proofpoint eru 98% smáskilaboða opnuð og 90% viðtakenda opna þau innan þriggja mínútna. Það er líka átta sinnum algengara að fólk smelli á hlekki í smáskilaboðum en tölvupóstum.

Til að forðast að falla fyrir svona svikum bendir Proofpoint fólki á að fara varlega ef óvænt skilaboð, tilkynningar um sendingar eða tilboð berast. Það ætti líka að fara varlega í að dreifa númerinu sínu og varast að opna hlekki í smáskilaboðum beint. Það er betra að afrita þá og opna þá í vafra í tölvu, þar sem almennt eru betri varnarkerfi til staðar. Það þarf líka að fara mjög varlega í að hlaða niður nýjum hugbúnaði fyrir snjallsíma og ganga úr skugga um að hann sé alltaf frá traustum aðila. ■