Snorri Rafnsson, sem oftast er þekktur sem Vargurinn á Snapchat og búsettur er í Ólafsvík, fangaði í dag haförn sem var ófleygur vegna grúts og ætlar hann sér að fara með hann til Reykjavíkur á morgun í aðhlynningu en fuglinn var nokkuð máttfarinn þegar hann náði honum.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem að Snorri bjargar slíkum fugli en það vakti gífurlega athygli í fyrra þegar Vargurinn bjargaði öðru slíku dýri sem farið var með í Húsdýragarðinn í fyrra en sá örn braggaðist aldrei.

Sjá einnig: Örninn í Húsdýragarðinum svæfður: „Ég skil þetta vel“

Í samtali við Fréttablaðið segir Snorri að hann hafi séð umræddan fugl í gær en fuglinn hafi verið orðinn afar grútarblautur en hann segir að það hafi gengið vel að ná honum, líkt og megi sjá á Snapchat og nú sé að vona að dýrið jafni sig. 

„Þetta er allavega fyrsta skrefið. Það gekk vel að ná honum og að koma honum í skjól, vegna þess að við viljum ekki að hann blotni meira svo hann verði ekki veikari og svo fer ég með hann til Reykjavíkur á morgun, á náttúrufræðistofnun þar sem þeir munu taka hann og hreinsa hann,“ segir Snorri sem segir að hann vonist til þess að fuglinum muni heilsast vel og ljóst að Snorri ber afar mikla virðingu fyrir dýrinu.

„Það er gaman að vera að vera búinn að gera þetta nokkrum sinnum, af því þetta er auðvitað kóngurinn,“ segir Snorri en hann er vongóður um að dýrið muni að þessu sinni braggast.