Rebekah Vardy, ólétt eiginkona fótboltamannsins Jamie Vardy, steig hágrátandi út úr vél sinni þegar hún lenti á Englandi í gær. Hún ákvað að koma snemma heim úr fríi sínu í Dubai eftir að hafa verið dregin inn í rifrildi við hana Coleen Rooney, eiginkonu fótboltamannsins Wayne Rooney.

Lagði gildru fyrir uppljóstrarann

Coleen sakaði Rebeku á dögunum um að leka sögum um sig og fjölskyldu sína í breska slúðurmiðilinn The Sun. Coleen kveðst viss um að Rebekah sé uppljóstrarinn en hún lagði fyrir hana gildru á einkaaðgangi sínum á Instagram (e. private account). Þar setti hún inn færslur með uppdiktuðum sögum en stillti þær þannig að aðeins frú Vardy gæti séð þær.

Þegar The Sun fór síðan að greina frá þessum lygasögum steig frú Rooney fram með yfirlýsingu um að það væri engin önnur en Rebekah Vardy sem væri búin að vera að greina fjölmiðlum frá einkalífi hennar.

Rooney-fjölskyldan. Coleen er viss um að Rebekah hafi lekið sögum af fjölskyldulífi þeirra.

Rebekah er ólétt af þriðja barni þeirra Vardy-hjóna. Hún hefur harðneitað því að vera uppljóstrarinn og hefur hneykslast á því að þurfa yfir höfuð að svara fyrir þessar sakir. Erlendir fjölmiðlar segja hana þá hafa bundið enda á frí sitt í Dubai til að koma heim og ráða tölvusérfræðinga til að sanna sakleysi sitt.

Segir einhvern annan hafa verið inni á Instagrami sínu

Þegar Rebekah lenti svo í gær á Heathrow-flugvelli var ljóst að hún var í miklu uppnámi. Hún sást leiða eiginmann sinn í gegnum flugstöðina í tárum. Vinir Coleen Roney hafa þá sagt að hún hafi grunað Rebeku um að gefa slúðurblöðum upplýsingar í mörg ár.

Coleen Rooney hafði grunað Rebeku um að leka upplýsingum í slúðurblöðin í nokkur ár.

Rebekah hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hún þvertekur fyrir að vera uppljóstrarinn. Hún kom þá með mögulega skýringu í staðinn: „Ég vildi að þú hefðir hringt í mig fyrst ef þig grunaði þetta,“ stóð í yfirlýsingunni. „Ég tala aldrei við neinn um þín einkamál þrátt fyrir að fjölmargir blaðamenn hafi nálgast mig og beðið mig um það.“

„Ef þetta var það sem þig grunaði hefðir þú getað látið mig vita og ég hefði getað breytt lykilorðinu mínu á Instagram og við séð hvort lekinn hefði stoppað. Í gegnum árin hafa ýmsir haft aðgang að mínum Instagram-reikningi ,“ segir hún þá viss um að einhver annar hafi verið inni á reikningnum hennar og lekið upplýsingunum þannig.