Litli-Bubbi er ein af sjö hliðum margbrotinnar persónu Bubba Morthens sem koma við sögu í sýningunni Níu líf í Borgarleikhúsinu þar sem tjúttað er feitt í gegnum magnaða lífssögu Bubba Morthens.

Níu líf hefur notið mikilla vinsælda frá því hún var frumsýnd á elleftu stundu, í mars í fyrra, rétt áður en heimsfaraldurinn lagði sína lamandi krumlu yfir leikhúslífið.Krafturinn í sýningunni er enn sá sami og á frumsýningunni fyrir rúmu ári og á fimmtudagskvöld urðu þau ánægjulegu tímamót að Litli-Bubbi, Ungi-Bubbi, Gúanó-Bubbi, Utangarðs-Bubbi, Egó-Bubbi, Góðæris-Bubbi og Sátti-Bubbi gátu loks skellt á skeið fyrir fullum sal af grímulausum áhorfendum.

Hjörtur Jóhann Jónsson, Edrú-Bubbi, og Óttar sem Litli-Bubbi í stuði ásamt Rakel Björgu Björnsdóttur.
Mynd/Aðsend

Í gærkvöld þreytti síðan hinn tíu ára gamli Óttar Kjerulf frumraun sína, sem Litli-Bubbi, á Stóra sviðinu þangað sem hann mætti til leiks nýklipptur, pínu stressaður en fyrst og fremst mjög spenntur.

Fer allt í reynslubankann

„Ég er sem sagt í Leiklistarskóla Borgarleikhússins og þar voru flestir strákarnir fengnir í prufur og ég komst áfram,“ segir Óttar sem hafði áður reynt fyrir sér í prufum í leikhúsinu fyrir Emil í Kattholti.

Þá heillaði hann dómnefndina þótt hann hefði ekki þótt passa í hlutverk Emils. „Þegar það vantaði nýjan Litla-Bubba í Níu líf þá var hann kallaður aftur inn og algerlega rúllaði þessu upp,“ segir Alexía Björg Jóhannesdóttir, kynningarstjóri Borgarleikhússins.

Ljósir lokkar fjúka

Óttar fórnaði ljósum lokkum sínum, sem hefðu hentað Emil betur, fyrir hlutverkið og þeir fengu að fjúka á fimmtudaginn. „Hann var með axlasítt hár en er núna orðinn stutthærður eins og hinir litlu Bubbarnir,“ segir Kristín Lena Þorvaldsdóttir, mamma nýjasta Litla-Bubbans.

„Fjöllin hafa vakað í þúsund ár. Ef þú rýnir inn í bergið sérðu glitra tár. Orð þín kristal tær drógu mig nær og nær. Ég reyndi að kalla á ástina sem úr dvala reis í gær!“

Leikarinn ungi staðfestir aðspurður að hann hafi verið mjög kátur þegar hann fékk hlutverk Litla-Bubba en er greinilega með báða fætur á jörðinni.

„Jú, en ég meina, ef ég hefði ekki komist áfram þá veit maður bara að þetta fer allt í reynslubankann sko.“ Óttar segir aðspurður að feimnin sé ekkert að þvælast fyrir honum og hefur orð pabba síns því til staðfestingar að leiklistarbakterían hafi lengi blundað í honum.

„Ég var bara að heyra það núna frá pabba mínum að þegar ég var fimm ára hafi ég bara allt í einu spurt: Hvernig er að leika í bíómynd. Hvað þarf ég að gera?“

Vakað með fjöllunum

Tónlist Bubba Morthens keyrir sýninguna vitaskuld áfram og þar er ekki komið að tómum kofanum hjá Óttari.

„Ég kannaðist við öll lögin af því ég heyrði þau í útvarpinu og svona en uppáhaldslagið mitt er Fjöllin hafa vakað,“ segir hann um einn Bubba-klassíkerinn sem tekinn er með tilþrifum í Níu lífum.

Hlutverk Litla-Bubba krefst þess meðal annars að leikarinn geti sungið og dansað og Óttar segist telja sig fullfæran í allt slíkt og ætlar greinilega að gefa sig allan í um það bil þriggja klukkustunda kvöldsýningarnar sem standa frá klukkan 20 til 23.

„Maður leggur sig bara allan fram og svo eftir það er maður náttúrlega rosa þreyttur en maður gerir þetta allt og það verður örugglega rosalega skemmtilegt.“

Fréttablaðið/Eyþór