Filippus prins, drottningarmaður til 73 ára varð einungis reiður í eitt skipti vegna dramaþáttanna um bresku konungsfjölskylduna The Crown á Netflix.
Þetta segir Guðný Ósk Laxdal, sérfræðingur í bresku konungsfjölskyldunni en hún er gestur í fyrsta þætti af Crownvarpinu, viðhafnarhlaðvarpi Fréttablaðsins um fimmtu seríu af The Crown.
„Filippus varð mjög reiður eftir eina seríu, mig minnir að það hafi verið sería 2 þegar systir hans dó í sorglegum atburði,“ segir Guðný.
Eldri systir Filippusar, Cecilía lést í flugslysi í nóvember árið 1937. Hún var þar ásamt fjölskyldunni sinni á leið í brúðkaup í London og virðist Cecilía hafa eignast barn í flugvélinni sem hrapaði vegna veðurs í Belgíu með þeim afleiðingum að allir í flugvélinni létust.
„Í The Crown er þetta sett upp eins og þau hafi verið á leið til Filippusar að heimsækja hann af því að honum hafi liðið illa í skólanum. Hann varð mjög reiður yfir þessu og fór til lögfræðings að athuga að kæra þetta.
Það var hinsvegar talið flókið mál, enda tæknilega séð skáldskapur og mottó konungsfjölskyldunnar er „Never complain, never explain“ svo það var hætt við. En þetta var næsta því sem breska konungsfjölskyldan komst því að kæra Netflix vegna þáttanna.“
Hlusta má á þáttinn hér fyrir neðan. Hann er mættur á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins.