Arnar Þór Jóns­son vara­þing­maður segir „réttrúnaðinn í sam­fé­laginu“ bera öll merki kirkjunnar. Arnar er gestur í pod­cast­þætti Sölva Tryggva­sonar en þar segir hann á­huga­vert að á sama tíma og guð­last hafi verið gert leyfi­legt sé að verða til ný tegund af guð­lasti og trú­villingum.

„Við lifum núna á tímum þar sem má guð­lasta, en það var ekki fyrr búið að heimila það með lögum að það verður til önnur hug­mynda­fræði sem vill setjast í há­sæti heilag­leikans sem má ekki gagn­rýna. Það má til dæmis guð­lasta, en það má ekki draga í efa lofts­lags­málin, þá ertu trú­villingur og fleira í þeim dúr.

Nú er orðið til nýtt guð­last og rétt­trúnaðurinn ber öll merki kirkjunnar, nema án fyrir­gefningar og um­burðar­lyndis. Mann­skepnan virðist alltaf þurfa að trúa á eitt­hvað og hafa eitt­hvað til til­beiðslu og þá er eins gott að við veljum eitt­hvað gott. Eitt­hvað sem heldur í skefjum okkar verstu til­hneigingum til of­beldis og valda­græðgi.“

Arnar, sem er vara­þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins og fyrr­verandi héraðs­dómari, segir sterkan undir­tón fas­isma í sam­fé­laginu og segir að fólk verði að vera á varð­bergi gagn­vart sam­runa stór­fyrir­tækja og stjórn­valda.

„Í við­skiptum er þessi þróun líka í gangi. Undir merkjum sam­keppni fækkar stöðugt fyrir­tækjum og þau stóru verða stærri og stærri og í raun verður meiri og meiri fá­keppni. Það eru fleiri og fleiri svið þar sem eitt, tvö eða þrjú fyrir­tæki ráða nánast öllu og í staðinn fyrir að á­herslan sé á verð­mæta­sköpun er á­herslan á sam­runa og yfir­tökur svo að topparnir geti greitt sjálfum sér sem mestan arð. Þessi fyrir­tæki eru oft al­þjóð­leg og þessi glóbalismi sem er stundum talað um er í raun þessi markaðs­hyggja á sterum sem hirðir ekkert um hags­muni vinnandi fólks.

Svo eru þessir risar í raun orðnir hættu­legir lýð­ræðinu af því að þeir vilja bara þagga niður í fólki sem er ekki sátt við þessa þróun og vill breytingar. Yfir­menn þessarra fyrir­tækja eru svo farnir að nota svipað tungu­mál og em­bættis­menn og það eru merki um á­kveðinn sam­runa milli risa­fyrir­tækja og hins opin­bera.

Það er eitt það hættu­legasa sem gerist og ein al­var­legasta mynd­birting fas­isma þegar stór­fyrir­tæki og pólitíska valda­kefið sam­einast og talar sama máli gagn­vart al­menningi. Nú eru í gangi margar ráð­stefnur og fleira þar sem er verið að taka á­kvarðanir um að verja milljörðum af skatt­fé borgaranna í verk­efni sem eru bein­tein­gd al­þjóð­legum stór­fyrir­tækjum.“

Segir svarthvíta heimsmynd á uppleið

Arnar segir að svart­hvít heims­mynd sé á upp­leið í bæði hægri og vinstri hliðinni í stjórn­málum. Það sé hættu­leg þróun sem fólk verði að vera vakandi fyrir.

„Það er rosa­lega sterkur undir­tónn fas­isma í gangi í sam­fé­laginu núna. Það er á­kveðin hóp­hyggja í gangi sem er með mjög lítið þol fyrir efa og and­stæðum skoðunum. Það er engin stemmning fyrir því að þú sem ein­stak­lingur leyfir þér að vera sjálf­stæður og efast um það sem hópurinn er að hugsa.

Það má finna þessa þróun bæði á hægri og vinstri vængnum og hlutunum er stýrt upp mjög svart hvítum og ekki mikið um sam­töl þar sem blæ­brigðin eru rædd. Það er alið svo mikið á ótta á þeim tímum sem við lifum núna og með því að hræra í pottum óttans er fólk fengið inn í fylkingar. Við sjáum þetta bæði á vett­vangi stjórn­málanna og líka í fjöl­miðlunum.

Einn fjöl­miðill boðar eina víddina og hinn bara eitt­hvað alveg öfugt. Ég vil hafa trú á fólki og ein­stak­lingum og að við getum talað okkur saman inn í niður­stöðu með því að rök­ræða ó­líkar skoðanir. Þannig getum við lifað saman með á­kveðið rými sem ein­staklingar, en samt í á­kveðinni sátt.“

Arnar er á því að verk­efni nú­tímans sé að ná aftur á þann stað að grunnur valdsins sé hjá þegnunum, en ekki vald­höfum og stofnunum.

„Við­fangs­efnið núna er í mínum huga fyrst og fremst að fólkið minni hið opin­bera og stjórn­mála­menn stöðugt á að grunnur valdsins er hjá borgurunum. Allt ríkis­vald kemur frá borgurunum, sem gefa á­kveðnum aðilum um­boð til að fara með valdið um á­kveðinn tíma.

Þróunin bæði al­þjóð­lega og á Ís­landi núna er sú að það er sí­fellt meira verið að færa valdið frá ein­stak­lingum yfir til vald­hafa eða stofnana, sem jafn­vel búa ekki einu sinni í sama landi. Þannig er í raun verið að af­tengja eðli­lega lýð­ræðis­lega vald­dreifingu. Fyrir mér verðum við að vera mjög vakandi yfir þessu núna, enda segir sagan okkur að það er full á­stæða til þess.

Maður heyrir dáldið mikið þessa hug­mynd núna hjá ungu fólki að við höfum ekki frjálsan vilja sem ein­staklingar. Með þeim rökum erum við ekki einu sinni sið­ferðis­verur sem höfum alltaf val og berum á­byrgð. Ef fólk trúir því að við séum bara hormón og hvatir erum við í mjög veikri stöðu gagn­vart yfir­völdum.“