Vil­helm Neto, leikari og grín­isti með meiru, var á leið frá gossvæðinu í Geldinga­dölum þegar jarð­skjálfti af stærðinni 4,1 reið yfir stuttu eftir klukkan ellefu í gær­kvöld. Upp­tök skjálftans voru að­eins ör­fáum kíló­metrum frá eld­gosinu og fór hann því ekki fram­hjá neinum.

„Það var alveg frekar ruglað,“ segir Vil­helm, yfir­leitt kallaður Villi. „Við vorum að fara niður bröttustu brekkuna á svæðinu þegar skjálftinn varð,“ út­skýrir Villi og á þar við brekkuna sem til­heyrir fyrri göngu­leiðinni og reyndist svo brött að á tíma­bili var settur upp kaðall til að tryggja öryggi fólks.

„Í miðri brekkunni heyrðist eitt­hvað ó­trú­lega skrítið hljóð,“ segir Villi sem kveðst ekki geta út­skýrt hvernig það var. „Ég hef aldrei heyrt jarð­skjálfta þegar ég er ekki inni í húsi.“

Venju­lega hafi hann orðið var við skjálfta þegar hlutir fara að titra innan­dyra. „Þá fattar maður þetta venju­lega, þegar hillur og bækur fara að hreyfast.“

Erfið þögn eftir skjálftann

Þessi upp­lifun var þó öll önnur. „Þarna var bara eins og það hafi orðið sprenging undir manni, sem var nokkuð stressandi.“ Villi segir alla í brekkunni hafa snar­stansað eftir að skjálftinn reið yfir.

„Það kom svo­lítið erfið þögn þarna hjá öllum eftir þetta,“ segir Villi. Allir hafi horft upp og í kringum sig að at­huga hvort nýjar sprungur eða á­líka náttúru­vá hafi myndast. Þar hefur ef­laust spilað inn í að varað hefur verið við því að fleiri sprungur geti myndast á svæðinu nánast fyrir­vara­laust.

Ís­lendingar öllu vanir

Andar­taki síðar féll lífið aftur í sinn vana­gang. „Þetta var mjög ís­lenskt, það bara héldu allir á­fram eins og ekkert hafði í skorist," segir Villi hlægjandi .

Vil­helm lýsti því yfir á Twitter að þetta væri án alls efa vera eitt af topp fimm steiktustu augna­blikum í lífi hans. „Þá er ég að meina á allri ævi minni," út­skýrir Villi sem gefur sér að fátt komi til með að toppa þessa lífs­reynslu. „Það var ein­hver sem spurði mig hver hin fjögur augna­blikin væru en þau eru ekki enn komin í ljós. Það er bara þessi upp­lifun sem á skilið að vera komið á listann.“