Fransk svissneski leikstjórinn Jean-Luc Godard er látinn, 91 árs að aldri, eins og greint var frá í gær. Lögmaður Godards, Patrick Jeanneret, segir að Godard hafi tekið ákvörðun sjálfur um að deyja og fengið dánaraðstoð í Sviss.

Godard var mikilsvirtur kvikmyndagerðarmaður og frumkvöðull í frönsku kvikmyndanýbylgjunni á sjötta og sjöunda áratug liðinnar aldar. Hefur verið talað um hann sem áhrifamesta kvikmyndagerðarmann Frakklands á eftirstríðsárunum. Leikstýrði hann myndum á borð við Breathless, My life to Live og Pierrot le Fou.

Heimildarmaður Libération-dagblaðsins í Frakklandi segir að Godard hafi ekki glímt við alvarleg veikindi áður en hann dó. Hann hafi einfaldlega verið „uppgefinn“ og ákveðið sjálfur að deyja.