Litlar styttur af dýrum með jólahúfur er fastur liður í jólaskreytingum fjölskyldu í Smá­íbúðahverfinu í Reykjavík. Raunar var aldrei planið að skreyta húsið með slíkum styttum en sú fyrsta, breiðnefur með jólahúfu og rauðan trefil, var svo hrikalega ójólaleg að sögn Maríu Hjálmtýsdóttur, að hún fór í hring og varð jóló. „Ég fann breiðnefinn í Góða hirðinum á sínum tíma og sá þá ekki þessa þróun beint fyrir. Breiðnefurinn með jólahúfuna eignaðist smám saman alla þessa vini því ójólaleg dýr með jólasveinahúfur eru bara eitthvað svo skemmtileg pæling.“

Dýrin koma úr ýmsum áttum og eru mis ánægð með hlutskipti sitt.

Yngsti prinsinn á heimilinu, Tjörvi, tekur undir orð móður sinnar. „Ég elskaði dýr þegar ég var lítill og hef alltaf haft gaman af dýrum. Því hef ég haft mjög gaman af þessum jóladýrum og um leið að stækka safnið,“ en þau mæðginin hafa fundið dýrin á hinum og þessum nytjamörkuðum, til dæmis hjá ABC við Nýbýlaveg og raunar víðar.

Góðahirðisgæsin hefur aldrei verið kát með jólahúfuna sína. Ekkert segir jól eins og undrandi gíraffi.

Þau segja jóladýrin eiga sína eigin gluggakistu þar sem þau eiga heima yfir jól og aðventu. „Breiðnefurinn hefur alla tíð verið í mestu uppáhaldi hjá mér en svo hef ég alltaf jafngaman af þeim sem eru á svipinn eins og þau séu hálffúl yfir að hafa fengið á sig jólasveinahúfu,“ segir María. Tjörvi er fljótur að afgreiða spurninguna um hvert sé uppáhaldsjóladýrið: „öll“.

Jólaboxerinn er í miklu uppáhaldi hjá Tjörva.

Fjölskyldan byrjar að skreyta í rólegheitunum í upphafi desember. „Þetta byrjar allt saman í rólegheitunum á aðventunni en jóladýraglugginn er alltaf í miklu uppáhaldi og er einna fyrstur upp.“

Jólabreiðnefurinn sem kom öllu af stað.