Það vita kannski fáir hvað heildræn heilsufræði er, en Matti lærði hana í Kaliforníu og útskrifaðist árið 1992. Hann hefur því starfað við fagið í hartnær þrjátíu ár. Seinna lærði hann markþjálfun en hann segir fögin vinna vel saman.

Matti útskýrir að heildræn heilsufræði sé þjálfun í að horfa á heilsu fólks út frá heildinni.

„Ég starfa sem markþjálfi hjá Ljósinu. Markþjálfun hefur verið aðalstarfið mitt í langan tíma en undanfarið finnst mér eins og heildræni heilsufræðingurinn hafi þurft að vakna aftur. Það er vegna þess hvað fólk hefur verið að eiga við, eins og streitu, kulnun og álag,“ segir hann.

„Þegar við horfum á heildina þegar kemur að heilsu þá þekkjum við þessa helstu þætti eins og hreyfingu, mataræði og að passa svefninn. En það er meira sem þarf að horfa á, eins og streitu. Það sem ég geri í Ljósinu meðal annars er að hjálpa fólki að tækla streituna og leiða fólk á þann stað að það geti höndlað aðstæður sínar betur.“

Matti útskýrir að heildræni heilsufræðingurinn skoði hvað það er sem veldur ójafnvægi hjá einstaklingnum.

„Það hefur verið átak í skólum undanfarið að viðurkenna áföll sem fólk hefur lent í og viðurkenna að það þarf ekki alltaf að halda andliti. Það þarf hugrekki til að vera heiðarlegur við sjálfan sig. Ég sem heildrænn heilsufræðingur gef fólki færi á því í algjörum trúnaði. Heildræni heilsufræðingurinn og markþjálfinn vinna mikið saman í mér og ég sé skýran mun á þeim.

Heildræni heilsufræðingurinn spyr: Af hverju ertu komin/n hingað? Hvað er að gerast hjá þér? Ég er ekki sálfræðingur svo ég er ekki að fara mikið inn í fortíðina. Ég spyr bara hvað hefur valdið ójafnvæginu. Svo tekur markþjálfinn við þegar fólk er tilbúið að horfa fram á við og setja sér markmið. Þetta virkar vel saman.“

Var dæmdur úr leik

Matti heyrði fyrst um heildræna heilsufræði þegar hann var á ferðalagi í Kaliforníu. Hann hafði verið í unglingalandsliðinu í körfubolta og spilað með Keflavík en búið var að dæma hann úr leik eftir meiðsli.

„Bæklunarlæknir vísaði mér áfram á taugasérfræðing, sem sagði við mig að ég myndi ekki ná mér og að ég myndi líklega ekki fara að leika mér aftur í íþróttum. En ég gat ekki sætt mig við það. Það sem ég lærði úti hjálpaði mér að komast yfir þetta áfall og núna er ég 55 ára gamall og er ennþá að spila körfubolta,“ segir Matti.

„Ég varð í raun náunginn sem ég hefði þurft á að halda þegar ég var ungur. Það er alveg skýrt í mínum huga. Ef ég hefði hitt mig eins og ég er í dag, þá hefði ég getað komið mér áfram og ekki hætt ferlinum. En þó ég sé enn að spila körfubolta þá tók þetta af mér ferilinn.“

Matti útskýrir að hann og allt hitt starfsfólk Ljóssins sé einmitt að hjálpa fólki að komast yfir áfallið við að greinast. Það sé stór hluti af endurhæfingunni og af því að komast aftur út í lífið.

„Þegar fólk greinist með alvarlega sjúkdóma þá hristir það mikið upp í lífinu. Fólk hættir að gera gert hluti sem það gerði áður og fólk dettur jafnvel út úr samfélaginu. Því fylgir oft sorgarferli án þess að fólk fatti það. Markþjálfunin og heildræna heilsufræðin vinna vel saman í Ljósinu að því leyti að þeir sem greinast eru ekkert allir tilbúnir að labba inn í markþjálfun samdægurs. Fólkið þar er oft alveg í sjokki og alls ekki tilbúið að setja sér markmið. En iðjuþjálfar Ljóssins, sem eru fyrsti snertiflötur fólks sem kemur þangað, beina því í góðan og viðeigandi farveg,“ segir hann.

„Fólk þarf auðvitað að komast örlítið úr eða frá áfallinu. Ég hjálpa fólki að komast á þann stað að geta byrjað að hugsa út í framtíðina. Um það snýst starf mitt í Ljósinu og á stofunni. Að aðstoða fólk aftur út í lífið. Að hjálpa því að finna næstu skref og halda sig á sinni vegferð á sínum eigin forsendum.“