Snædís fór að vinna á verkstæðinu hjá pabba sínum og afa þegar hún var kornung. Hún segist frá upphafi hafa haft sérstakan áhuga á gömlum húsum enda voru það verkefnin sem pabbi hennar og afi voru vanir að fást við.

„Ég hef alveg reynslu af nýbyggingum því ég hef verið í almennu viðhaldi líka, en það er allt öðruvísi og miklu leiðinlegra finnst mér. Þú ert með miklu meira lifandi efni þegar þú ert með spýtu. Við höfum mest unnið við gömul timburhús en líka steinhlaðin hús og steypt hús. En ég hef meira gaman af timburhúsum,“ segir Snædís.

„Pabbi er húsasmiður og afi var húsgagnasmiður. Þeir voru alltaf saman í gömlum verkefnum og ég hef verið með þeim í því síðan ég var tólf ára,“ segir Snædís og bætir við hlæjandi að það væri kannski ekkert sérstaklega samþykkt í dag að tólf ára krakki væri inni á verkstæði að taka á móti spýtum úr vélum.

Snædís lærði húsasmíðina seint þrátt fyrir að hafa byrjað að vinna við hana ung en hún útskrifaðist árið 2018. Hún fór fyrst í háskóla en áttaði sig fljótt á að það hentaði henni ekki.

„Ég fór í háskóla bara eins og maður á að gera. Þegar ég kláraði hann fattaði ég að ég fæ miklu betur borgað sem verkamaður en stjórnmálafræðingur. Svo ég ákvað að vinna bara áfram með pabba,“ segir hún.

„Það er ekki hægt að sérhæfa sig í gömlum húsum í húsasmíðanáminu hér á Íslandi en ég lærði af pabba og afa í vinnu hjá þeim. Það er hægt að taka einn áfanga í framhaldsskólanáminu en þar fær maður bara yfirborðsþekkingu.“

Snædís segir aftur á móti að dönskukennslan hafi nýst henni mjög vel því hún hefur lesið mikið af bókum á dönsku, sænsku og norsku um viðhald gamalla húsa.

„Okkar byggingarlist er svo tengd þeirra svo ég hef staulast í gegnum ótrúlegt magn af rosalega skemmtilegum bókum á þessum tungumálum,“ segir hún.

Snædís mokar geitungabúi undan þakinu á Siggubæ í byggðasafni Hafnarfjarðar. MYNDIR/AÐSENDAR

Eitthvert spýtnadrasl

„Það er miklu ríkari menning á Norðurlöndunum í að viðhalda gömlu húsunum. Á Íslandi er miklu meira um það að þegar fólk gerir upp gamalt hús, þá rífur það allt innan úr því. Þannig að þegar þú gengur inn þá sést ekki að þú ert að ganga inn í gamalt hús, heldur er oft eins og þú sért að ganga inn í Ikea-sýningarherbergi. Fólk lætur svo oft allt að innan gossa. Svo er það þessi 100 ára regla, en eftir 100 ár eru hús friðuð. Fólk er oft að drífa sig í að gera allar breytingar sem það getur þegar húsið er 98-99 ára, áður en það dettur inn í þennan stífa lagaramma.“

Snædísi finnst viðhorfið hér á landi samt vera farið að breytast.

„Það hefur aukist mikið á undanförnum árum að fólk vilji viðhalda gömlum húsum. En það var ekki þannig. Ég man þegar ég var unglingur og fólk sagði: Þetta er bara eitthvert spýtnadrasl sem má bara moka í burtu. Maður heyrir sem betur fer lítið af því í dag,“ segir hún.

„Eins heyrði ég oft þegar ég byrjaði að ég var kölluð krakkinn eða stelpan. Það kom fyrir að maður heyrði að maður ætti að drulla sér aftur inn í eldhús. Það er algjörlega horfið. Ég heyri þetta ekki lengur.“

Aðspurð hvort hún haldi að það sé vegna þess að konum hafi fjölgað í faginu segist hún ekki viss um að það sé raunin.

„Þegar ég útskrifaðist 2018 þá vorum við bara 42 sem höfðum fengið sveinspróf í faginu frá upphafi. Ég held að þetta sé frekar breyting í andrúmsloftinu í samfélaginu. Það samþykkir enginn eitthvert misrétti lengur.“

Serbl_Myndatexti:Snædís fjarlægir hefilspæni sem var einangrun í þakinu á Siggubæ til að geta komið fyrir nýjum þaksperrum.

Fáir kunna gömlu aðferðirnar

Snædís vinnur með pabba sínum í dag og segir hún verkefnin vera mjög fjölbreytt.

„Við erum mikið að vinna í steinskífuþökum núna, svo erum við líka í stórtækum burðarvirkisbreytingum og viðgerðum þar sem verið er að bæta við kvistum og lagfæra. Þá erum við að fella spýtu við spýtu í gömlum timburlásum,“ segir hún. Hún segir að þegar hús eru orðin 100 ára og friðuð eigi að notast við gamlar aðferðir við að lagfæra þau.

„En svo eru ekkert margir sem kunna þær aðferðir. Það er oft sem maður kemur að húsi sem einhver hefur reynt að gera við en það hefur ekki tekist því það vantar upp á kunnáttuna.“

Flest verkefnin sem Snædís og pabbi hennar fást við séu í miðbæ Reykjavíkur en þau ferðast samt um allt land til að gera við gömul hús.

„Við erum með aðstöðu í Hafnarfirði en við förum bara alls staðar þar sem er þörf á okkur. Við vorum til dæmis í Ingólfsfirði á Ströndum í sumar. Þar er gamalt hús sem heytir Eyri sem verið er að gera upp,“ segir hún.

„Við höfum líka unnið fyrir söfn, til dæmis byggðasafnið í Hafnarfirði og á Árbæjarsafninu. Af því að afi var húsgagnasmiður þá höfum við líka smíðað mikið af sýningarskápum fyrir söfn. Afi var mikið í því að smíða skápana en hann dó því miður árið 2008. Kúnnarnir héldu samt áfram að leita til okkar af því pabbi hafði verið að smíða með honum. Það eru skápar frá okkur úti um allt. Þeir eru á held ég öllum söfnum sem ég hef komið inn á í góðan tíma. Það er til dæmis einn skápur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem maður labbar alltaf fram hjá á leiðinni út. Við pabbi smíðuðum hann þegar ég var 14 ára.“

Trausti pabbi Snædísar við skápinn sem þau feðgin smíðuðu og er nú í Leifsstöð.

Ómetanlegt að vinna með fjölskyldunni

Eitt skemmtilegasta verkefnið sem Snædís hefur unnið að var viðgerð á Fríkirkjuvegi 3.

„Það er ofboðslega fallegt hús við hliðina á Fríkirkjunni í Reykjavík. Við tókum það alveg í gegn. Innréttuðum, einangruðum, klæddum og settum tvo kvisti á húsið. Eigendurnir vildu að þetta yrði gert ofboðslega vel og útkoman varð mjög flott,“ segir hún.

„Svo vorum við að klára að taka í gegn bókasafnið í MR. Það var verið að færa það í upprunalegt horf. Við færðum allar bækurnar á neðri hæðina og settum lestrarrými fyrir nemendur á efri hæðina. Svo var bárujárn tekið af þakinu og settar steinskífur. Það var mjög fallegt. Það þurfti samt aðeins að nútímavæða það, við þurftum að bæta við neyðarútgangi til að tryggja öryggi nemenda.“

Snædís segist ekki sjá fyrir sér að vinna við eitthvað annað í framtíðinni en húsasmíði.

„Ég prófaði að sitja við tölvuna þegar ég var í háskólanum og það á ekki við mig að sitja og gera ekki neitt. Ég hef alltaf haft gaman af að læra og hélt alltaf góðum einkunnum og var því aldrei greind með ADHD en ég er pottþétt með það, það á ekki við mig að sitja kyrr,“ segir hún.

„Svo er ég svo heppin að vinna með pabba allan daginn og er þess vegna náin honum. Mamma sér um bókhaldið svo maður er í miklum tengslum við fjölskylduna. Það er ómetanlegt.“