Geturðu sagt frá þér í stuttu máli?

„Ég starfa daglega sem freelance forritari. Ég vinn að vísu við alls konar forritun en það helsta sem ég hef verið að gera síðustu ár er vefvinna, þá í stórum sem og smáum vefum. Að vinna sjálfstætt hefur gefið mér frelsi til þess að þróa mínar eigin aðferðir og eins að vinna við óhefðbundnari verkefni eins og listatengd verkefni og tölvuleikjagerð. Mér finnst skemmtilegast þegar starfið mitt er fjölbreytt og þegar ég get hagað því eftir eigin höfði.“

„Í frítíma mínum finnst mér mjög gaman að búa til tónlist en ég hef verið að vesenast í því meira eða minna síðan ég var unglingur. Eins hef ég gaman af öllum listatengdum greinum, tek ljósmyndir og reyni að nota forritunarkunnáttuna mína til þess að víkka listræna tjáningu.“

Hefurðu áhuga á tísku? Ef svo er, hvenær byrjaði sá áhugi?

„Já, ég myndi segja að ég hafi mikinn áhuga á tísku. Ég hef alltaf haft áhuga á klæðnaði sem er hannaður fyrir konur. Mér hefur einfaldlega alltaf fundist hann meira spennandi. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær það byrjaði en man eftir því að hafa verið að klæða mig í kvenmannsföt allt frá því ég var fimm ára. Ég var mikið leikrita- og söngleikjabarn og þar kemur litríkur klæðnaður mikið við sögu. Ég hafði sérstaklega áhuga á því að sjá karlmenn klædda í kvenmannsföt.“

Donna klæðist hér svörtum kjól frá Asos sem er í miklu uppáhaldi um þessar mundir. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR

„Ég held að það hafi verið af því að mér hefur alltaf fundist karlmannstíska hálf geld og leiðinleg. Það eru einfaldlega ekki sömu valmöguleikar í boði. Á unglingsárunum fór þetta úr söngleikjum og leikritum yfir í hljómsveitir sem klæddu sig öðruvísi. Ég var til dæmis heltekinn af Brian Molko, söngvara hljómsveitarinnar Placebo, sem klæddi sig í kvenmannsföt og var með málningu. Mér fannst þetta bara það besta sem að ég hafði nokkurn tímann séð.“

Donna segir Brian Molko, forsprakka hljómsveitarinnar Placebo, hafa haft mikil áhrif á tískuvitund sína. MYND/GETTYIMAGES

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

„Ég reyni svolítið að velja það sem að klæðir mig best en það getur verið mismunandi eftir tilefni. Ég elska til dæmis pallíettukjóla og finnst gaman að fara í þeim út. Eins bara kjóla almennt en ég hef komist að því að kjólar sem að gefa smá rými henta mér best. Stundum langar mig í þrönga kjóla en það virkar eiginlega bara ekki á mér. En ef ég er ekki að fara út fínt þá er það kannski aðeins meira kósýklæðnaður. Ég er mjög hrifin af litríkum og stórum hettupeysum. Myndi segja að stíllinn minn sé blanda af „glam/casual second hand“.“

Hver er uppáhaldsflíkin?

„Uppáhaldsflíkin í augnablikinu er svartur kjóll sem ég fékk á ASOS. Hentar við öll tilefni, passar vel á mig og er mjög flottur.“

Hvar sækirðu innblástur?

„Ég fæ mikinn innblástur í dag frá til dæmis Kawaii senunni í Japan. Elska þannig klæðnað. Þetta eru til dæmis litríkar og stórar hettupeysur, litríkar sokkabuxur, sætir skór og þannig. Ég fylgist líka svolítið með á Instagram. Oft er ég að fylgja konum bara til að sjá í hverju þær eru, við hvaða tilefni og hvernig það myndi mögulega koma út á mér. Fæ líka stundum innblástur frá bíómyndum sem að ég horfi á.“

Áttu þeir einhverja/r tískufyrirmynd/ir?

„Ég myndi segja að japanska poppstjarnan Kyary Pamyu Pamyu sé stór fyrirmynd. Hún leggur mikið upp úr litríkum og fjölbreyttum klæðnaði. Ég hef farið á tónleika með henni og hún skipti um föt fjórum sinnum á meðan á tónleikunum stóð. Það var magnað og allt mjög flott föt.“

Donna er afar hrifin af hinni japönsku Kyary Pamyu Pamyu. MYND/GETTYIMAGES

Áttu þér uppáhaldshönnuð/i?

„Ég á ekki beint einn uppáhaldshönnuð en ég elska almennt fólk sem kemur fram við tísku eins og listformið sem það er og reynir að teygja það út í eitthvað sem hefur ekki verið gert áður. Alexander McQueen hefur til dæmis alltaf verið í miklu uppáhaldi. En ég á mér nokkra uppáhaldsstíla. Til dæmis er ég mjög hrifin af fatnaði sem leikur sér með geómetrísk form. Ég er með Pinterest síðu þar sem að ég safna saman tísku sem mér finnst spennandi á: pinterest.com/k0ttur/fashion/“

Eyðirðu miklu í föt?

„Það fer smá eftir hvað ég hef mikið á milli handanna í hverjum mánuði. Stundum kaupi ég mikið í einu, stundum kaupi ég ekkert í marga mánuði. Ég hef aðeins verið að reyna að minnka óþarfa fatakaup núna til þess að minnka kolefnissporið. Helst reyni ég bara að versla við búðir núna sem fylgja ekki þessu skynditískumynstri (e. fast fashion) . Blessunarlega er þannig búðir að fjölga hér heima og mér finnst maður geta keypt sér flott föt án þess að vera að skilja eftir sig sóðalegt spor. En þetta er stundum erfitt. Ég vil alltaf kaupa mér miklu fleiri föt en ég hef ráð á. En ég reyni að takmarka þetta við það sem ég virkilega þarf og reyni að láta það duga.“

Hver er þinn helsti veikleiki þegar kemur að tísku og útliti?

„Minn helsti veikleiki var lengi að halda að ég gæti platað mig í föt sem að henta mér augljóslega ekki. Ég er orðin mun betri í þessu núna en mér fannst þetta mjög frústrerandi til að byrja með. Þá var ég kannski að panta kjóla sem voru nú þegar frekar litlir á konur og litu bara fáránlega út á mér. Ég er svolítið búin að sætta mig við líkamsbygginguna mína en ég er til dæmis frekar axlabreið og þá virkar ekkert rosa vel að klæða sig í kjóla sem að gera ráð fyrir grönnum öxlum. En á móti kemur að ég er í skóstærð 41 sem er mjög gaman, af því að ég get vanalega bara gengið inn í búð og fengið mér kvenmannsskó án þess að hafa áhyggjur af því að finna ekki númerið mitt.“

Notar þú fylgihluti og skart?

„Ég nota ekki mikið hringa einfaldlega af því að ég er með frekar þykka putta og finnst þeir bara oft ekki passa á mig. En ég nota svolítið hálsmen og eins finnst mér mjög gaman að hafa eitthvað skart á úlnliðnum.“

Hvar kaupir þú helst föt?

„Uppáhaldsnetbúðirnar mínar eru Asos og Syndromestore. Uppáhalds íslensku búðirnar mínar eru Kjólar & konfekt, Fatamarkaðurinn og Wasteland.“

Hvað er fram undan hjá þér í haust?

„Ég er að gera meiri músík í ár og reyna að einbeita mér meira að því þegar ég er ekki að vinna. Ég tók ákvörðun í byrjun ársins um að slaka á í drykkju og finnst það strax hafa mjög jákvæð áhrif og núna hef ég meiri tíma til að einbeita mér að öðrum hlutum sem að mér finnst skemmtilegir. Er líka í smá átaki að hreyfa mig meira. Er alfarið bara að einblína á aukna vellíðan, minnka stress, eyða meiri tíma með fólkinu sem ég elska og gera hluti sem mér þykir vænt um.“